31.05.1918
Neðri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

55. mál, reglugerð fyrir sparisjóði

Frsm. (Einar Árnason):

Þótt fjárhagsnefnd sje í raun og veru meðmælt þingsályktunartillögunni á þgskj. 128, þá hefir hún þó ekki getað fallist á að mæla með, að hún verði samþykt óbreytt. Till. fer fram á það, að öllum þeim sparisjóðum, sem óska þess, verði veitt undanþága frá ákvæðum sparisjóðsreglugerðarinnar frá 5. maí 1917. Nefndin sjer ekki ástæðu til að gefa svo lausa taumana. Henni sýnist, að allir stærri sparisjóðir ættu að geta framfylgt reglugerðinni. Þeim ætti hvorki að vera það ofvaxið kostnaðarins vegna, nje heldur er líklegt, að stjórn þeirra sje svo skipuð, að þeir eigi fyrir þá sök erfitt með að fullnægja kröfunum. Aftur er það augljóst, að smærri sparisjóðir til sveita eiga fult í fangi með að fullnægja kröfum reglugerðarinnar. Sparisjóðir eru nú sem óðast að koma upp til sveita, og munu þeir í byrjuninni hafa lítið fje til umráða. Venjulegast er það, að þeir menn gangast fyrir stofnun sjóðanna, sem eitthvað vilja á sig leggja fyrir gott málefni. Er þeim svo oftast falið að stjórna sjóðunum, og fá þeir að jafnaði litla borgun fyrir ómök sín. Skilyrðið fyrir því, að litlir sjóðir geti starfað, er það, að þeir þurfi ekki miklu að kosta til stjórnarinnar. Það getur komið sjer mjög bagalega fyrir þessa sjóði að vera skyldir til að fylgja reglugerðinni í öllum atriðum, einkum ef stjórnin er dreifð, sem oft vill verða í sveitum. Ef nú þessi umfangsmikla bókfærsla, sem reglugerðin fyrirskipar, yrði þess valdandi, að áhugi manna á stofnun nýrra sparisjóða minkaði, væri það illa farið, og því vill nefndin mæla með því, að hinum smærri sparisjóðum sje veitt undanþága, ef þeir sýna, að bókfærslu þeirra sje tryggilega fyrir komið. Brtt. nefndarinnar er miðuð við það, að undanþága sje ekki veitt öðrum sparisjóðum en þeim, sem hafa 75.000 kr. eða minna fje til umráða og eiga heima í sveit. Nú hefir komið brtt. frá háttv. aðalflm. þessarar till. (St. St.). Vill hann, að upphæðin sje hækkuð úr 75.000 upp í 100.000. Jeg hefi ekki borið mig saman við samnefndarmenn mína um þessa brtt , og get því ekkert um hana sagt í nefndarinnar nafni, og fyrir mitt leyti sje jeg ekki, að upphæðin skifti miklu máli. En þar sem þetta varð niðurstaðan í nefndinni, þá býst jeg ekki við, að hún falli frá sinni till., jafnvel þótt hún geri þessa brtt. ekki að neinu kappsmáli. Í nefndinni greindi menn dálítið á um það, hverja upphæð skyldi setja. Uppástunga kom um það að hafa hana 50.000 kr., en aðrir vildu setja 100.000. Til að fá samkomulag var svo þessi meðalvegur farinn. Jeg vil svo fyrir nefndarinnar hönd mæla með því, að till., eins og hún er orðuð á þgskj. 241, verði samþ.