25.05.1918
Neðri deild: 31. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

57. mál, námsstyrkur til háskólasveina

Pjetur Ottesen:

Jeg tel þessa brtt. háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) til mikilla bóta, því að á till. frá háttv. meiri hl. fjárveitinganefndar var ekki annað að sjá en að þessarar viðbótar gætu að eins notið þeir einir, er áður hafa fengið styrk. En eftir því, sem jeg hefi fengið spurnir af, leikur það mjög á tveim tungum, hvernig úthlutun þessa háskólastyrks hefir verið framkvæmd. Jeg hefi haft þær fregnir um úthlutun styrks í læknadeild háskólans, að mikil ástæða er til að ætla, að úthlutunin sje þar mjög mikið handahófsverk. Jeg veit nú ekki, hvaða reglum, eða kann ske rjettara sagt regluleysi, þar er fylgt, hvort styrknum er úthlutað sem ölmusu, eða sem verðlaunum fyrir námfýsi og ástundun. Mjer þykir líklegast, að þessu tvennu sje blandað saman. Að byggja á fjárhagsvottorðum nemenda tel jeg mjög hæpið: þau eru oft mjög ófullkomin, en sjálfsagt má byggja á sumum, en sumum ekki. Yfirleitt er kennurunum lítt kunnar efnahagsástæður nemenda, og fjárhagsvottorðin gefa ekki nema mjög ófullkomna mynd af þeim. En aftur á kennurum að vera tiltölulega kunnugt um ástundun nemenda, ef það væri lagt til grundvallar.

Mjer er nú kunnugt um, að það var svo við læknadeild Háskólans í vetur, að þar var húsaleigustyrkur veittur öllum nýsveinum nema einum. Nú mun það vani að veita þennan styrk öllum þeim, sem eiga heima utan Reykjavíkur. Og svo var einnig nú, að allir nýsveinar utan Reykjavíkur fengu hann, nema þessi eini piltur, og auk þess nokkrir, sem búsettir eru í Reykjavík. Veit jeg þó, að þessi piltur stendur ekki öðrum að baki um ástundun eða þess háttar.

Sama er að segja um námsstyrkinn. Hann fengu nýsveinar allir, nema þessi eini, og svo annar til, sem má ske ekki hefir sótt vel tíma. Þetta þykir mjer dálítið undarleg tilhögun. Það væri kann ske full ástæða til að breyta til, svo að einhverjir aðrir hefðu hönd í bagga með úthlutuninni. Mætti þá vænta þess með þessari brtt. háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), ef samþ. verður, að þessi úthlutun kæmi ekki niður á þeim einum, sem áður hafa notið styrks, heldur og á þeim, sem út undan hafa orðið, svo að prófessorunum gefist færi á að bæta fyrir syndir sínar í þessu efni.

Brtt. er því nær sanni en aðaltill., þó að jeg fyrir mitt leyti vilji ekki leggja meira fje á þessar handahófsmetaskálar prófessoranna.