25.05.1918
Neðri deild: 31. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

57. mál, námsstyrkur til háskólasveina

Einar Arnórsson:

Jeg vil auðvitað ekki segja neitt um þetta sjerstaka tilfelli, sem háttv. þm. Borgf. (P. O.) talaði um, en þess vil jeg geta, að það er oft hreint og beint álitamál, hver eigi að fá styrk og hve mikið hver eigi að fá. Því að þótt settir sjeu um þetta aðaldrættir í fjárlögunum, þá er það ekki einhlítt, því að við úthlutun verður að byggja á svo mörgu, bæði efnahag og iðni nemandans. Og þegar um efnahaginn er að ræða, sje jeg ekki, hverju öðru eigi að fara eftir en fjárhagsvottorðunum. Það liggur ekkert ábyggilegt fyrir, nema þessi vottorð, gefin af nemandanum og undirrituð af einhverjum skilríkum og ábyggilegum manni, sem þekkir vel allar ástæður.

En svo drap háttv. þm. Borgf. (P. O.) á það, að það væri álitamál, hvort ekki ættu einhverjir aðrir en kennarar að hafa hönd í bagga um úthlutunina. Jeg get ekki, með besta vilja, sjeð, hverjir aðrir það ættu að vera. Jeg sje ekki, hver er færari að dæma um verðleika og þörf pilta en kennararnir, að minsta kosti um fyrra atriðið. Við mentaskólann hafa aðrir en kennarar þetta vald, sem sje sú deild stjórnarráðsins, er skólamálin heyra undir. En það er að eins að forminu til. Þessi úthlutun getur aldrei orðið önnur en sú, að samþykkja tillögur rektors skólans um úthlutun styrksins. Við háskólann er það svo, að kennarar hverrar deildar gera tillögur um, hver styrk skuli fá og hve mikið hver. Það er síðan lagt undir úrskurð háskólaráðsins á sameiginlegum fundi, og það treystir sjer ekki til að ganga á móti þessum tillögum, eða segja hvað er rangt. En í háskólaráðinu er einn kennari úr hverri deild, og ef hann gerir athugasemdir við till. frá sinni deild, þá mega þær athugasemdir eftir atvikum verða teknar til greina. En það skal tekið fram, að það hefir ekki komið fyrir, að komið hafi annað en samhljóða till. frá hverri deild. Mjer er algerlega óskiljanlegt, hver ætti að hafa íhlutunarrjett um þetta, og teldi illa farið, ef horfið væri að því ráði, sem nú er upp tekið, fyrst og fremst af því, að það er opinbert vantraust á deildum háskólans, og í öðru lagi gætu þau afskifti, ef þau yrðu annað en „formelt“ kák, leitt til enn verra misrjettis. Og eftir því, sem jeg veit best, er hvergi í víðri veröld öðruvísi fyrirkomulag en á borð við það, sem hjer er, að styrkurinn er veittur eftir tillögum þeirra, sem hljóta að þekkja best til. Persónulega þekki jeg þetta ekki, nema eins og það var í Kaupmannahöfn í minni tíð. Tilhögunin þar var ekki ósvipuð um styrki og „legöt“, en hjer er sá stóri munur, að kennarar eru persónulega kunnugir iðni og ástundun hvers nemanda, en svo er ekki við stærri háskóla.

Held jeg, að það sje því mikil spurning, hvort hægt sje að fá rjettlátari tilhögun á úthlutun háskólastyrks en hjer á sjer stað.