10.07.1918
Neðri deild: 67. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Fjármálaráðherra (S. E).:

Að eins vildi jeg láta þess getið, sem jeg geri reyndar ráð fyrir, að óþarfi sje að taka fram, að stjórnin mun að sjálfsögðu gæta allrar gætni í framkvæmdum þessa máls, og aldrei veita styrkinn nema þörfin sje ótvíræð.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara inn á baráttu þá, sem hjer á sjer stað milli „princip“anna í þessu máli. En jeg hefi kynt mjer málið frekar og leitað upplýsinga um dýrtíðarráðstafanir annara þjóða, og hafa þær þjóðir, sem best hafa frá dýrtíðarmálunum komist, yfirleitt komist að þeirri sömu niðurstöðu og stjórnin, að lánaleiðin væri óheppileg.