25.05.1918
Neðri deild: 31. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

64. mál, lán handa Suðurfjarðahreppi

Flm. (Hákon Kristófersson):

Það er samkvæmt ósk hreppsnefndarinnar í Suðurfjarðahreppi, að jeg leyfi mjer að bera fram þessa till.

Um hana þarf í sjálfu sjer ekki að fjölyrða. Greinargerð hennar er svo fullnægjandi og ítarleg, að af henni geta háttv. þm. vel gert sjer grein fyrir, hvers verið er að óska og til hvers því fje á að verja, sem óskað er eftir með till. Eins og greinargerðin og ber með sjer, horfir til svo mikilla vandræða, hvað þetta bygðarlag og hjerað snertir, að það er ljóst, að ef ekki kemur hjálp frá landinu, hlýtur þetta hjerað að lenda í meiri háttar vandræðum, sem vitanlega stafa af hinum mörgu en ófyrirsjáanlegu tálmunum og óhöppum, er fyrir hafa komið.

Í sambandi við þetta vil jeg geta þess, að ef hægt verður að ljúka við fyrirtæki þetta í haust, þá má búast við miklum sparnaði á olíu og kolum, og þótt svo væri litið á, að þessi rafveita væri ekki mikið atriði fyrir landið í heild sinni, hvað sparnað á þessum vörutegundum snertir, þá er þó sparnaður olíu og kola á þessum tímum, hve lítill sem er, þó nokkurs virði, jafnvel fyrir landið í heild sinni.

Að farið er fram á að fá lánið til svo langs tíma stafar af því, að með því, að svo verði, þá mun notendum rafveitunnar ekki verða erfiðara með að standa í skilum með vexti og afborganir, er jafnað væri á 40 ára bil, þó að rafveitan kosti liðugar 100 þús. kr., en þó að hún hefði kostað 55 þús. og átt að borgast á 20 árum. Þar af leiðandi er það mjög verulegt atriði, að lánið fáist til sem allra lengsts tíma.

Eins og tekið er fram í greinargerðinni fyrir till., þá má benda á það, að með veitingu láns þessa mun margur maður geta fengið góða atvinnu við rafveituundirbúninginn í sumar, og eins og nú standa sakir hvað atvinnuvegi þjóðarinnar snertir, eru það meðal annars mjög mikil meðmæli með lánveitingunni.

Jeg býst nú við, að mjer verði svarað því, að landssjóður hafi ekki nú fje til að lána til þessa fyrirtækis, fremur en annara. Mjer ætti ekki heldur að vera ókunnugt um, að fjárhagurinn er ekki í sem bestu lagi; þótt svo megi ef til vill líta á, að landssjóður hafi ekki fje til, er handbært sje til útlána, þá ber þess að gæta jafnframt, að hann stendur ólíkt betur að vígi en eitt lítið hreppsfjelag, enda fjárhagur hans engu lakari, þó að hann láni 35 þús. eða láni þær ekki.

Jeg hefi þegar tekið það fram, að jeg sje ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þessa till. á þessu stigi málsins, en jeg leyfi mjer að óska þess, að henni verði, að þessari umr. lokinni, vísað til fjárveitinganefndar, sem að sjálfsögðu þarf að segja álit sitt um hana, að því leyti er fjárveitinguna snertir.