25.05.1918
Neðri deild: 31. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

64. mál, lán handa Suðurfjarðahreppi

Bjarni Jónsson:

Jeg furða mig mjög á að heyra þessa ræðu, vegna þess, að þarna stendur alt öðruvísi á en fyrir austan. Þar var verkið ekki byrjað. Vil jeg, að það sje hjer til ráðs tekið að hjálpa þeim, sem byrjað hafa á einhverjum framkvæmdum fyrir stríðið, svo sem þessum hreppi. Til háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) vil jeg segja það, að hann vissi það ekki í fyrra, að byrjað væri á verkinu; þá sagði hann, að þeir væru ekki byrjaðir, en þessir menn voru byrjaðir. Hafa þeir mist hvað eftir annað í sjóinn það, sem þeir hafa þurft til stöðvarinnar, og þess vegna hefir alt orðið miklu dýrara.

Ekki er það heldur rjett að segja, að hinir og þessir, hvort það er nú fyrir austan eða vestan, sjeu að fara í landssjóðinn og ausa úr honum, því að þeirra för í landssjóðinn er ekki annað en að fá lán úr honum, og ætla þessir menn að borga það aftur. Hins vegar er það, að þegar fyrirtækið er svo langt komið, er mikill skaði að stöðva það, en á hinn bóginn mikill kostur, að menn geti fengið ljós og eldsneyti. Finst mjer því rjettast að vísa málinu til fjárhagsnefndar.