25.05.1918
Neðri deild: 31. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

64. mál, lán handa Suðurfjarðahreppi

Flm. (Hákon Kristófersson):

Það var nokkuð, sem jeg bjóst við, að einhver mundi rísa upp á móti þessu máli, en að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) mundi byggja mótmæli sín á jafnósanngjörnum og rakalausum fjarstæðum og komu fram í ræðu hans, kom mjer ekki til hugar. Jeg held, að jeg verði að halda því fram, að hann hafi tæplega lesið greinargerðina, þótt þess sje varla til getandi um svo mætan og eftirtektarsaman mann og hann er, því að hún ber ekki vott um, að ekki hafi verið í þetta ráðið með fyrirhyggju. Auðvitað er það ekki ómögulegt, að oss Vestfirðinga skorti mjög á þá fyrirhyggju, sem háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hefir til brunns að bera, þegar hann ræðst í fyrirtæki fyrir sig eða aðra, en væntanlega verður háttv. þm. (Sv. Ó.) mjer sammála um það, að stöðvun á þessu fyrirtæki geti orðið til þess, að þúsundir króna verði eyðilagðar, sem þegar eru komnar í verkið. Það er alveg rjett, að það var hreppur í fyrra, sem bað um lán til líkra fyrirtækja, en það sje jeg ekki að komi þessu máli við. Þykir mjer því undarlegt, þegar mikilsvirtir þm. undra sig yfir því, að bæjarfjelög komi og biðji um hjálp landssjóðs, þegar svo er komið, að þau af einhverjum ástæðum geta ekki lokið við fyrirtæki sín.

Um þetta fyrirtæki er það að segja, að þegar byrjað var á því, stóð svo alt öðruvísi á en nú, eins og áður hefir verið margtekið fram.

Það hefir margsinnis verið rætt um það, bæði í þessari háttv. deild og þinginu í heild sinni, að eitt af því, sem á því hvíldi, væri að hjálpa mönnum til þess að komast út úr vandræðum dýrtíðarinnar, sem nú er. Jeg efast um, að önnur hjálp geti verið heppilegri til þess að komast yfir vandræði tímans heldur en sú, sem nú er verið að tala um. Hjer er ekki eingöngu um það að tala að leggja síðustu hönd á verk, sem bæði er gróða- og sparnaðarfyrirtæki, heldur líka um það að veita mönnum atvinnu, þar sem má ske mundi verða lítið um hana annars. En það eitt út af fyrir sig er þó ekki aðalatriðið.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) tók vel og viturlega í þetta mál, eins og við var að búast af honum, og hafi hann þökk fyrir það. En andmæli háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) býst jeg ekki við að sjeu sprottin af beinum illvilja, og vil jeg benda honum á, að hann má ekki láta það koma niður á þessari málaleitun, þótt hans beiðni væri feld í fyrra, því að þetta er alt annað. Það var ekki búið að verja í það 1/10 hluta þess kostaðar, sem kominn var í þetta fyrirtæki. Landsbankinn hefir, eins og kunnugt er, lánað 75.000 kr.; hinar 35.000 kr., sem vantar, er nú farið fram á í till. að landssjóður hlaupi undir bagga með, til þess að fyrirtækið komist til fullra nota á næstkomandi hausti, og get jeg ekki sjeð annað en að það sje vel framkvæmanlegt. Og jeg ætla að vænta þess, þó að það þyki má ske frambærileg ásökun, að hreppar og sýslufjelög ráðist í fyrirtæki, sem hafa útgjöld í för með sjer og þau eru ekki fær um, að enginn þyki skyldari til þess að bjarga þeim út úr vandræðunum en einmitt Alþingi, ef það skilur hlutverk sitt. Býst jeg ekki við, að til þess komi, að það fari að leggja sig þvert í götuna fyrir framfara- og gróðafyrirtæki, heldur að það muni framfylgja því, sem þeim mætti verða til sem mestrar nytsemdar.

Jeg hefi margtekið það fram, að greinargerðin fyrir þessari till. er svo góð, að hún ætti að verða til þess, að hver einasti þm. ætti að verða með till, svo framarlega sem menn álíta ekki, að þar standi beinlínis ósannindi.

Jeg skal svo óska þess, að málinu sje vísað til fjárveitinganefndar, og vænti jeg, að þar sitji svo góðir og hagsýnir menn, að því sje þar vel borgið, og að hæstv. Alþingi skilji svo hlutverk sitt, að það telji sjer skylt að hjálpa framkomu þessa og annara fyrirtækja, er landsmenn ráðast í og til nytsemda eru, með allri þeirri aðstoð, er því er mögulegt í tje að láta. Og það vil jeg vona, að þetta mál verði ekki til þess, að það leiðist í ljós, að í þinginu sje ríkjandi svívirðing hreppapólitíkurinnar, enda þótt ekki sje laust við, að á henni bóli.