29.05.1918
Neðri deild: 34. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

64. mál, lán handa Suðurfjarðahreppi

Hákon Kristófersson:

Jeg hefi ekki mikið til málanna að leggja á þessu stigi málsins. En fyrst hæstv. forseti hefir leyft mjer að taka til máls, þá finn jeg ástæðu til að þakka háttv. fjárveitinganefnd fyrir undirtektir hennar í málinu. Það virðist liggja ljósara fyrir henni en háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), hvernig málavöxtum er komið. Þó segi jeg ekki, að það liggi ekki ljóst fyrir þessum háttv. þm. (Sv. Ó.), að hjer stendur alt öðruvísi á en nokkursstaðar þar, sem um rafveitulán hefir verið að ræða áður, og að varla sje hægt að hugsa sjer, að eins verði ástatt annarsstaðar. (E.A.: Heldur þá háttv. þm. Barð (H. K.), að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hafi talað á móti betri sannfæringu?). — Ja — hvað heldur háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) um það? — Annars er það undarlegt, að á þgskj 234 leggur sami háttv. þm. (Sv. Ó ) til, að landssjóður veiti stærri upphæð en þá, sem hjer er um að ræða, ekki að láni, heldur sem styrk til fyrirtækis handa einu hjeraði, sem önnur hjeruð gætu farið fram á að fá handa sjer seinna. Það sje fjarri mjer að segja, að það sje ekki rjettmæt hugsun hjá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) að vilja styðja það fyrirtæki. En það er ekki í góðu samræmi við framkomu hans í þessu máli. Það mundi þykja ósamræmi og ekki mikilsverð frammistaða hjá þm. Barð., ef hann færi þannig að ráði sínu. Jeg skil ekki, hvernig getur á því staðið, að þessi maður (Sv. Ó.), sem að allra manna dómi er með færustu mönnum til að setja sig inn í málefni, getur verið á móti þessari till.

Háttv. frsm. fjárveitinganefndar (M. P.) sagði, að nefndin sæi sjer ekki fært að fara eftir till. minni með upphæð lánsins. Við því er ekki mikið að segja. Það getur verið sanngjarnt, að viðkomandi hreppur leggi á sig þungar byrðar, þegar svona stendur á, að velferð hreppsins er í veði. En þeir hafa nú þegar geit töluvert í þá átt, bæði með því að taka þetta stóra lán, og á síðastliðnu ári var allveruleg upphæð lögð á gjaldendur hreppsins. Því er nú svo varið með þessa rafveitu, að hún kemur aðallega kauptúninu að notum, en ekki öðrum hlutum hreppsins. Það hefir því verið reynt að gera sem allra minst að því, er fært hefir þótt til þessa, að jafna útgjöldum til rafveitunnar niður á gjaldendur með öðrum sveitargjöldum, kostnaði við rafveituna, því að þá kæmi hann líka niður á þeim, sem fjær búa og ekki hafa nein veruleg not af rafveitunni, en því hefir hlutaðeigandi hreppsnefnd viljað hliðra sjer hjá.

Eftir því, sem jeg veit best, hefir verið lagt á hreppsbúa í þessu skyni á annað þúsund krónur. Það mætti að vísu smámótmælum af þeim hreppsbúum, er utan kaupstaðarins búa, en þó ekki verulegum. Jeg býst og við því að þótt lán þetta fáist, verði óhjákvæmilegt að leggja á komandi hausti allverulega upphæð á hreppsbúa. En eins og háttv. deild hefir verið skýrt frá, er hreppurinn fremur vel efnum búinn, og þótt hann legði eitthvað frekara á sig, myndi það ekki vera honum til mikils baga.

Mjer þykir leitt, að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) skuli svo gjarnt að benda á, að hreppsbúar hafi haft í huga að seilast eftir fje í landssjóð. Jeg fæ ekki sjeð, að þetta sje á rökum bygt. Eins og háttv. frsm. (M. P.) hefir tekið fram, lá málið svo fyrir, er fyrirtækið var afráðið og alt fram á síðustu tíma, að ekki virtist koma til mála, að leita þyrfti á náðir landssjóðs. Þetta hlýtur háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) að vita af greinargerð till., ef hann beinlínis álítur hana ekki ósanna. Og hafi hann leitað sjer upplýsinga síðan till. þessi var hjer á dagskrá fyrir skömmu um það, hvort margir eða fáir efnamenn væru í hreppnum, þá hygg jeg, að honum hafi verið innan handar að komast að raun um, hvort greinargerðin er sannleikanum samkvæm.

Jeg bjóst ekki við því, að neinar umr. yrðu á þessu stigi málsins, nema frá nefndarinnar hálfu. En ekki tjáir að sakast um það, sem orðið er, og mun það háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) fremur að kenna en þakka.