29.05.1918
Neðri deild: 34. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (1135)

64. mál, lán handa Suðurfjarðahreppi

Sveinn Ólafsson:

Jeg vildi að eins gera stutta athugasemd.

Háttv. frsm. (M. P.) lagði áherslu á það, að ekki stæði líkt á með neitt annað sveitarfjelag, og væri þetta fordæmi því eigi hættulegt. En jeg benti áðan á það, að líkt gæti staðið á fyrir fleiri hreppum. Þeir þyrftu ekki annað en að byrja á samskonar fyrirtæki, útvega sjer efni og öll tæki frá útlöndum, standa síðan ráðalausir uppi eins og þvörur og kalla þá á hjálp úr landssjóði.

Það, sem háttv. þm. Barð. (H. K.) gaf í skyn, að jeg hefði talað um hug mjer eða móti betri vitund, þá er því til að svara, að jeg heyrði þau ummæli óljóslega og verð því að leiða hjá mjer að svara þeim.

Aftur á móti heyrði jeg glögglega, að háttv. þm. (H. K.) þótti jeg gera mig sekan í meiri háttar ósamkvæmni, þar sem jeg hefði mælt með því að veita 40.000 kr. styrk til þess að kaupa björgunarbát, en væri þessu mótsnúinn. Þessi samlíking hefir ef til vill haft einhver áhrif á háttv. deild. En jeg vil benda á, að hjer er ólíku saman að jafna.

Styrkurinn til björgunarbátskaupa, 40.000 kr., er lítilsverður hjá þessu. Hann lýtur að björgun manna úr lífsháska og björgun stóreigna eftir vorum mælikvarða, þar sem vjelbátarnir eru. öðru máli er að gegna um Suðurfjarðahrepp og íbúa hans. Jeg vona, að þeir skrölti og haldi lífinu án rafveitu, og eignatjón getur þar eigi verið um að ræða, þótt henni verði frestað, neitt í líkingu við skipsskaða. En ástæðan er vissulega brýn til þess að reyna að draga úr því feikna manntjóni og skipa, sem undanfarin ár hafa sýnt, að vænta má að verði hjer við suðurströnd landsins og Vestmannaeyjar, ef ekkert er að gert.

Jeg vona því, að öllum sje ljóst, hve ólíkt hjer stendur á.