14.06.1918
Neðri deild: 49. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

78. mál, hækkun á styrk til skálda og listamanna

Gísli Sveinsson:

Jeg mundi í sjálfu sjer ekki hafa neitt á móti því, þó að þessum mönnum, sem hjer um ræðir, eða öðrum, væri veitt einhver uppbót á því kaupi, sem þeir hefðu átt tilkall til, eða átt að fá fyrir verk sín, jafnvel þótt um slíkan styrk væri að ræða sem skálda- og listamannastyrk, sem ekki er nú alment skoðaður sem kaup fyrir ákveðin verk, heldur jafnvel sem þóknun fyrir að vera til og starfa að þessum verkum. Nú, þrátt fyrir það, þótt jeg sje svona innrættur, sem menn munu kannast við, þykir mjer dálítið viðurhlutamikið að fara inn á þessa braut, sem hjer er ráðið til, en það er þó ekki kostnaðins vegna aðallega. Það er alkunnugt, að Alþingi hefir, eftir mikla rekistefnu, þar sem það áður útbýtti úr sínum hnefa því fje, sem átti að ganga til þeirra manna, sem voru styrkþegar hins opinbera, eftir mikla rekistefnu, segi jeg, breytt til, og það varð úr, að þingið fái sjerstakri nefnd manna að ákveða, hve mikinn styrk hver einstakur maður skyldi hljóta af þeirri fúlgu, sem þingið vildi ánafna til skáldskapar og lista.

Ef nokkur meining hefði átt að vera í þessu, þá ætti sú nefnd að hafa fult einræði um það mál. Það getur vel verið, að sumir háttv. þm. hafi verið mótfallnir þessu og heldur viljað hafa þetta í höndum þingsins, og má segja ýmislegt bæði með og móti því, en um það verður ekki deilt, að þingið hefir falið þessari nefnd starfið, og að stjórnin virðir þessa starfsemi nefndarinnar og úthlutar styrknum nákvæmlega eftir till. hennar. Það getur ekki heldur leikið neinn vafi á því, að svo framarlega sem ekki á að dæma þessa nefnd marklausa, verður hún að ráða, hverjir eiga að hafa styrkinn og hve mikið hver hlýtur; þessi nefnd er skipuð með tilliti til þess, að hún hafi fult vit á því, og það er líka eðlilegt, því að þingið, eins og það er skipað, getur ekki nema að örlitlu leyti dæmt um þetta í raun og veru, ekki nema örfáir þm., sem geta með nokkurri mynd dæmt um, hvað sje verðlaunavert. Það liggur í hlutarins eðli, að hjer eru ekki saman komnir bókmentamenn og listamenn. Jeg verð því að vera á móti því, að þingið fari að setja nefndinni skorður um, hvernig með skuli fara; hún verður að ráða því ein, og jeg er í öðru lagi á móti því, að gera eigi þá ályktun hjer á þinginu, að menn, sem verið hafa jafnir að styrk, þurfi að halda áfram að vera það, en með þessu segi jeg ekkert um það og legg engan dóm á það, hvernig fara eigi með þessa menn, sem till. ræðir um; jeg vil að eins benda á, að slíkt, sem hjer hefir orðið, getur vel komið fyrir. Hugsum oss t. d. 2—3 unga menn, sem ekki hafa fengið neitt orð á sig, en hafa fengið svo sem 300 króna styrk hver, en svo kemur það fyrir, að einn eða tveir af þessum mönnum fara að skara fram úr, en hinir dragast aftur úr; þá er ekki hægt að halda þeim besta í 300 krónum eða láta ónytjungana halda styrk, með öðrum orðum ekki hægt að halda þeim jöfnum, og er þá nokkur meining í að þingið fari að skipa fyrir um, að þeir skuli vera jafnir? Og það er einmitt með tilliti til þess, að svona valinni nefnd var falið að hafa málið með höndum, því að hún gæti allra best fylgst með því. hvernig gera ætti upp á milli manna.

Ef háttv. þm þykir það of lítið fje, sem veitt hefir verið til þessara mála yfirleitt, þá liggur beint við að hækka það og láta nefndina að sjálfsögðu ráða, hvernig skift skuli. En að fara að taka einstaka menn út úr, það er algerlega órjett, og verð jeg af þeim sökum að vera á móti þessari till.