14.06.1918
Neðri deild: 49. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (1150)

78. mál, hækkun á styrk til skálda og listamanna

Bjarni Jónsson:

Mjer væri, ef til vildi, leyfilegt að gera þá athugasemd, að jeg tel það engan hringlandahátt af Alþingi nje brot á neinni meginreglu, þótt það yki listamannastyrkinn, því að öll þessi ár, síðan styrkurinn var ákveðinn, hafa peningar stöðugt fallið í verði svo að lífsnauðsynjar allar eru nú orðið svo dýrar, að menn þessir hafa miklu lægri styrk en áður. Það er þess vegna enginn hringlandaháttur, þótt þingið veitti þeim einhverja dýrtíðaruppbót, sem öðrum starfsmönnum landsins.

Það var rjett, sem háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði um starfssvið nefndarinnar. En hann gleymdi að geta þess, að það fylgdi þessari ráðstöfun, að þeir, sem voru orðnir svo gamlir í fjárlög unum, að styrk til þeirra mætti telja rjettláta eftirvæntingu, voru undanskildir dómi nefndarinnar. Nefndinni hefir þannig aldrei dottið í hug að strika út neinn þeirra, sem áður nutu styrks. Má þar til nefna gamalt sálmaskáld, sem eigi er illa statt fjárhagslega, og hefir nefndin eigi gert ráð fyrir, að hann yrði sviftur styrkinum. En nefndin átti að ákveða, hverjum nýjum skyldi við bætt, hversu mikils styrks þeir væru maklegir og hve lengi þeir skyldu njóta hans. En þeir voru undanskildir þessari reglu, sem notið höfðu styrka svo lengi, að hann mætti telja rjettmæta atvinnuvon.

En svo kom nýtt atriði til sögunnar. Stjórnin lagði til, að hækkaður skyldi styrkur eins þessara gömlu manna um helming, úr 1.200 kr. upp í 2.400 kr. Þetta leist fjárveitinganefndinni ranglátt. Hún kvað stjórninni eigi heimilt að skifta þessu fje, og gerði þá athugasemd, að hún gæti eigi samþykt, að þeir yrðu gerðir ójafnir, sem áður hefðu verið jafnir, heldur ættu þeir allir að hækka jafnt. Þess vegna hefi jeg miðað mína till. við þennan vilja nefndarinnar í fyrra, að menn þessir yrðu nú allir gerðir jafnir. Guðmundur Guðmundsson hefir lægra styrk en hinir, en á að hækka hlutfallslega við þá. Þessi hækkun á ekki að koma í bág við reglu þá, sem háttv. þm. V.-Sk. (G.Sv.) lýsti rjettilega. En þessir menn verða að eins undanskildir reglunni meðan þeir lifa. Annars skal jeg geta þess, að þótt jeg væri með nefndarvalningunni, tel jeg enga vissu fengna fyrir því, að hún sje vel kjörin. Það er engin trygging fyrir, að dómar hennar um gildi listaverka sje rjettlátir. Jeg álít, að nefndin eigi að vera skipuð mönnum, sem valdir eru þannig, að myndlistamenn velja einn, annar er valinn af skáldum og þriðji af háskólanum eða vísindamönnum, til þess að hún hefði tillögurjett um listir og vísindi, og ætti að víkka valdsvið hennar. En jeg fæ ekki sjeð, að nefndin sje nú hafin yfir aðfinslur. Reyndar má virða henni þetta til vorkunnar, því að prentun þingtíðindanna gekk seint, svo að umræðurnar voru ekki prentaðar þegar styrkveitingarnar fóru fram. Að vísu hafði þó einn umsækjanda safnað saman ýmsu, er sagt hafði verið í umr. En hann hafði eigi tekið alt, t. d. ummæli fjárveitinganefndar. Þetta er sá umsækjandinn, er hæstan styrkinn fjekk. Jeg þykist vita, að þetta hefði orðið á annan veg hefði nefndin lesið umræðurnar, en það var yfirsjón nefndarinnar að lesa ekki handritið hjá skrifstofustjóra, er hún gat fengið aðgöngu að og farið eftir.

Nú þætti mjer rjettast, að mín till. yrði samþykt, að þessir menn fengju jafnan styrk þeim, sem hæstur er, úr því að hann ber ekki ægishjálm yfir hina. En lægsta uppbótin, sem jeg vænti að háttv. deild geti komið sjer saman um, er sú, sem fjárveitinganefndin hefir stungið upp á, sem sje 1/3 á móti hækkun hins hæsta. Jeg get ekki sjeð, að neitt ætti að verða þessu til fyrirstöðu, með því að jeg hefi rakið afstöðu þessara manna til hinna eldri styrkþega, og á hinn bóginn starfsvið nefndarinnar.