11.06.1918
Neðri deild: 46. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

91. mál, almenningseldhús í Reykjavík

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Hæstv. forsætisráðherra hefir nú þegar að nokkru tekið af mjer ómakið, þar sem hann hefir drepið á nokkur af þeim atriðum í ræðum tveggja þm., er mótmælt hafa till.

En háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) virtist misskilja tilgang till., að minsta kosti um utanförina. Það getur nú verið mín sök, því að jeg hefi má ske farið lítið út í tilganginn með þessari utanför áðan þegar jeg talaði. Það er ekki ætlun vor, að þessir menn fari í skóla, til þess að læra þar tilbúning matar, heldur fari þeir til þess að kynna sjer stjórn og tilhögun erlendra almenningseldhúsa, hverskonar áhöld sjeu heppilegust til matreiðslunnar o. s. frv., eða með öðrum orðum að kynna sjer alt, er lýtur að ytra fyrirkomulagi og stjórn slíkra fyrirtækja. Þetta ætlum vjer vel kleift þeim, sem eru vel inni í þessum hlutum, — því að ekki viljum vjer, að sendir sjeu aðrir en þeir, sem eru vel að sjer — og ættu þeir því að geta kynt sjer þetta á 2 mánuðum. Það er kunnugt, að slíkar stofnanir starfa bæði vetur og sumar, en eru einkum nauðsynlegar að vetrinum, og er það því ætlun nefndarinnar, að mennirnir fari utan með „Botniu“ næst, og komi þá aftur 1. septembermánuði í haust. Þarf auðvitað ekki að biða eftir þeim með allan undirbúning, því að hjer mætti auðvitað fyrst og fremst útvega eldivið, húsnæði og ýmsan annan útbúnað til starfrækslunnar, og ennfremur afla sjer þeirra áhalda, er fáanleg eru hjer og enginn vafi er á að þarf á að halda. En annars býst jeg nú við, að þessum sendimönnum yrði falið að gera innkaup á nauðsynlegum áhöldum.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) færði það og sínu máli til stuðnings, að það væri óþarft að senda menn utan, því að vjer hefðum reynsluna, þar sem væru samskonar mötuneyti heima. Það er rjett, sem hann tók fram, að hjer er að ræða um samlagsmötuneyti við ýmsa skóla, Samverjann og mötuneyti manna í verbúðum. En þess ber að gæta, að þetta alt er í svo tiltölulega smáum stíl, að þar eru ekki nema nokkrir tugir manna, sem matreitt er fyrir. En við því má búast, að starfinu verði að haga á annan veg, ef búist er við að margir menn, jafnvel svo að mörgum hundruðum skiftir, matist á sömu stofnun.

Sami háttv. þm. (M. Ó.) kvað þetta fyrirkomulag koma helst einhleypum mönnum að notum. Geti það bætt þeirra kjör, tel jeg það þegar góðra gjalda vert, eins og högum slíkra manna er háttað yfirleitt hjer á landi. En svo ber þess og að gæta, að það eru allar líkur til þess, að margir þeir, er heimili eiga, leiti á þessa staði. Og jeg bið háttv. þm. (M. Ó.) að athuga það, að ef margir menn verða bjargarvana, þá er hagur fyrir bæjarfjelagið að veita þeim fæði á þennan hátt. Því fólki, sem ekki hefir því fleiri börn, getur slík hjálp orðið miklu notadrýgri en þótt það fengi nokkrar krónur, og bæjarsjóði yrði það mikill sparnaður. En þetta á því að eins við, að fyrirtækinu sje almennilega stjórnað. Get jeg því engan veginn fallist á, að óþarfi sje að senda mann eða menn utan í þessu skyni. Vjer þekkjum ekkert til þessara stofnana, og fyrir stríðið þektust þær ekki erlendis, með því fyrirkomulagi, sem nú er á þeim, hvað þá heldur hjer. Og frá því, að fyrst var byrjað með þær, hafa þær tekið miklum stakkaskiftum til bóta, og er fullyrt, að fyrirkomulagið sje miklu betra nú en í byrjun.

Viðvíkjandi því, sem háttv. þm. (M. Ó.) sagði, að útlendingar hefðu ýmsar þær fæðutegundir, er ódýrari væru, en við hefðum ekki, einkum úr jurtaríkinu, þá viðurkenni jeg það rjett vera. En það var ekki meiningin, að þessir menn ætli að fara utan til að læra erlendis að blanda fæðutegundir. Þess er krafist, að þeir kunni það áður. Og þeir eiga ekki að semja sig að sið annara, nema að því leyti, sem best á við hjer.

Annars hygg jeg, að þessi ummæli háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) hafi verið sprottin af skjótri athugun málsins, en ekki af því, að hann sje því andvígur. Hygg jeg, að hann muni sjá það við nánari athugun, að gott eitt geti af þessu leitt.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagði, að með till. þessari væri samþykt vantraust á hússtjórnarskólanum. Það nær auðvitað ekki neinni átt, því að á nefndri stofnun beinist kenslan í nokkuð aðra átt. Og ekki skil jeg, að það geti komið til mála, að þessi ferð yrði einungis til skemtunar, ef fjeð yrði veitt, og þaðan af síður, að þetta geti álítist bitlingur. Þetta er ekki það mikið fje, að sá, eða þeir, sem nýtur þess, verður að fara sparlega með það, og hrekkur auðvitað ekki til, og verður vitanlega að gera grein fyrir því, hvernig hann hefir varið því. Jeg ímynda mjer, að þeir, sem fara nú þessa erindis, geri það ekki af því, að þeim þyki það skemtilegt, heldur af þeirri nauðsyn, er þeim þykir vera á þessu máli.

Háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) virtist líta till. þessa illu auga og fann henni alt til foráttu. Skal jeg ekki kljást neitt við hann um málið, en þess mætti þó geta, að öðrum augum hafa aðrir litið á þetta mál, er fult svo góð skilyrði hafa haft til þess að dæma um það af einhverri þekkingu og viti eins og þessi hv. þm. (Sv. Ó.). Annars skal jeg ekki fjölyrða um ræðu hans, því að hún gaf ekkert tilefni til þess.