11.06.1918
Neðri deild: 46. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

91. mál, almenningseldhús í Reykjavík

Einar Arnórsson:

Jeg get fyrir mitt leyti ekki gert mjer nægilega grein fyrir því, hver nauðsyn er á að senda menn utan til að kynna sjer fyrirkomulag almenningseldhúsa.

Það, sem mjer sýnist fyrst þurfa til að hrinda slíku af stað, eru menn með heilbrigðri skynsemi, sem kunna að halda spart á peningum, kaupa inn vörur, halda reikninga og búa til mat, eða í fám orðum sagt, ráðdeildarsamt, sparsamt og stjórnsamt fólk. Mjer virðist of skammur tími til þess að láta menn læra matgerð, enda væri það líka óþarft, enda mun tilætlunin ekki vera sú, að þessir menn læri matgerð. Auðvitað má vera, að þeir, sem út færu, gætu sjeð og lært eitthvað þarflegt. En hjer í deild munu þeir þó margir, er ekki hafa trú á því, að slík utanför geti að þessu leyti kornið að verulegu gagni. En þar með er alls ekki gefið, að Alþingi eigi ekki að sinna þessu máli. Þetta skipulag hefir reynst vel sumstaðar erlendis, sparað fje og ljett mönnum lífið á ýmsan hátt. Sje jeg ekki, að öllu óreyndu, ástæðu til að ætla annað en að sama gæti orðið hjer á landi, og þó auðvitað að eins í kaupstöðum og stærri sjávarþorpum.

En þótt þingið geti ekki beint felt sig við að veita styrk til utanfarar, þá sje jeg ekkert því til fyrirstöðu, að þingið styrki málið á annan hátt og gefi stjórninni heimild til að veita styrk til þess að koma fyrirtækinu á fót. Með það fyrir augum get jeg greitt atkvæði með till. til 2. umr., og er þá hægur hjá að orða greinina svo, að styrkur til þessa fyrirtækis sje ekki látinn vera komin undir utanför.

Það má nú vel vera, að þeir, er hugsað hafa þetta mál enn rækilegar en jeg, hafi getað fundið fullgildar ástæður fyrir því, að sendiförin sje nauðsynleg. Skál jeg ekkert um það segja, en fæstir munu þó geta dæmt um það atriði til nokkurrar hlítar.

Jeg vildi gera mönnum það skiljanlegt, að þótt jeg geti ekki verið með till. svo orðaðri, þá sje jeg ekki ástæðu til þess að meina henni að ganga til 2. umr., ef þá mætti breyta henni í það horf, er við mætti una.