11.06.1918
Neðri deild: 46. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

91. mál, almenningseldhús í Reykjavík

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg hefi ekki haft tækifæri til þess að bera mig saman við meðnefndarmenn mína um það, hvernig þeir mundu taka því, ef þingsályktunartill. verður breytt, en þykist þó geta sagt, að því mundi verða vel tekið, ef menn að eins vildu hafa eitthvert annað orðalag.

Jeg vona, að till. verði vísað til síðari umr.

Viðvíkjandi því, sem háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði síðast, vil jeg geta þess, að jeg er honum þakklátur fyrir margt af því. Hann hefir á marga lund stutt mitt mál og það, sem jeg hefi sagt um nauðsyn þá, er væri til þess að koma því fram. Jafnvel það atriði, sem jeg mintist á, að senda þyrfti menn utan, þá var það einmitt af því, að hjer mun skortur á áhöldum, sem til þurfa, og væri því gott, að þeir gætu fengið að sjá, hver áhöld væri hagkvæmast að nota.

Háttv. þm. (M. Ó.) lýsti því mjög greinilega, að hann hefði opin augu fyrir nauðsyn og nytsemi þessa máls. Get jeg því verið honum þakklátur fyrir flest af því, sem hann sagði.