15.06.1918
Neðri deild: 50. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

97. mál, efniviður til opinna róðrarbáta

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Í raun og veru er það alt tekið fram í greinargerðinni, sem framsögumaður þarf að segja í þessu máli.

Jeg skal taka það fram, að það var eftir tillögum bjargráðanefndar, að þessum skýrslum um róðrarbáta var safnað. Þótti nefndinni þörf á að grenslast eftir, hvernig ástatt væri um útgerðina.

Eins og sjest í greinargerðinni, hafa allir, sem skýrslu hafa gefið, látið þá skoðun í ljós, að haldist vjelbátaútgerðin í svipuðu horfi sem hingað til, sje ekki bein þörf á að fjölga róðrarbátum. En fari svo, að hún teppist að meira eða minna leyti, sje ekki einungis þörf á að viðhalda þeim róðrarbátum, sem við höfum, heldur og brýn nauðsyn á að fjölga þeim.

Eins og nú stendur á, getum við búist við því á hverri stundu, að vjelbátaútgerðin teppist. Og komi það fyrir, er sjávarútvegurinn illa kominn, ef ekki er hægt að leita sjer bjargar á sjónum með öðru móti. En þá er og víst, að þeir róðrarbátar, sem við eigum til nú, eru alveg ónógir til að reka útgerð í líkingu við það, sem hingað til hefir verið gert.

Nefndinni duldist ekki, að erfitt yrði að útvega svo mikinn efnivið, sem þyrfti til þess að fjölga róðrarbátum að mun. En hins vegar þótti nefndinni sjálfsagt, að ekki yrði undir höfuð lagst að afla efniviðar til viðhalds þeim bátum, sem við höfum nú, en þeir eru um 2.000 talsins eftir skýrslunum. Nú er hvergi til efniviður til báta, nema á Akureyri, og auk þess mun lítið eitt til hjer í Reykjavík.

Bjargráðanefnd leit svo á, að hjer væri um mjög verulegt.bjargráð að ræða, og því mætti eigi dragast lengur að gera ráðstafanir til þess að bæta úr þessum skorti. Þær yrði að gera svo skjótt, að í haust yrði að minsta kosti nægur efniviður til viðhalds, og æskilegt, að nokkrar birgðir yrðu til aukinna bátasmiða.

Nefndin hefir ekki farið fram á að heimila stjórninni neina fjárhæð til þessa. Hún leit svo á, að þessir aðdrættir yrðu faldir landsversluninni, og kæmi kostnaðurinn þá fram í reikningum hennar.

Það má ganga að því vísu, að allerfitt muni að fá bátavið. Það veltur á því, hvort samgöngur vorar við Danmörku teppast Danmörk er eini staðurinn, sem um er að ræða; þaðan gætum við fengið bátavið frá Svíþjóð. Og því fremur er ástæða til þess að vinda sem bráðastan bug að þessu máli, sem margir munu nú hræddir um, að samgöngur við Norðurlönd teppist.

Þessi orð mín heyrast ekki af hæstv. stjórn, þar sem enginn ráðherranna er viðstaddur hjer í salnum, en jeg vona, að greinargerðin sje nægileg til þess, að hæstv. stjórn sinni till.