20.06.1918
Neðri deild: 52. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

100. mál, lán handa klæðaverksmiðjunni á Álafossi

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Það getur vel verið, að það megi líta svo á, sem hæstv. fjármálaráðherra gat um, að það, sem jeg ljet um mælt um ábyrgðina, komi ekki vel heim við orðalag tillögunnar, og gæti því verið rjettara, að nefndin taki það til athugunar milli umr., hvort þörf sje á breytingu á orðalaginu. En meining nefndarinnar var nú sú, að stjórnin mundi láta sjer nægja — auk þess sem lagt er í verksmiðjuna, — persónulega ábyrgð eigendanna, og finst mjer í sjálfu sjer, að þegar stjórnin hefir heyrt þann vilja þingsins, ef háttv. deild samþykti það, geti hún vel staðið sig við það að fara eftir honum og lána út á persónulegar ábyrgðir það, sem veðið ekki fullnægir.