20.06.1918
Neðri deild: 52. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

100. mál, lán handa klæðaverksmiðjunni á Álafossi

Björn Kristjánsson:

Það er út af orðalagi till., sem jeg vil gera ofurlitla athugasemd, — af því að mjer er kunnugt um, að verksmiðjan er veðsett fyrir, þá er nauðsynlegt að taka það fram, hvort hjer sje um 1. eða 2. veðrjett að ræða. Jeg veit, að verksmiðjan er veðsett Landsbankanum með 1. veðrjetti, en till. segir ekkert um það, en jeg ætla, að orðalag till. verði athugað dálítið betur, því að eins og hún liggur fyrir, mætti skilja hana svo, sem það væri 1. veðrjettur, sem stjórnin ætti að taka. Reyndar hefir það komið fram hjá háttv. frsm. (Þorl. J.), að það væri veðrjettur á eftir öðrum veðrjetti, en það er betra að taka það fram í till. sjálfri, enda er það miklu skýrara og rjettara, að það felist í till. sjálfri, hvað meint er.