20.06.1918
Neðri deild: 52. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

100. mál, lán handa klæðaverksmiðjunni á Álafossi

Matthías Ólafsson:

Hjer stendur svo á, að þetta er ekki hlutafjelag, heldur fjelag með ótakmarkaðri ábyrgð; það er því óþarfi að taka nokkuð fram um persónulega ábyrgð, nema því að eins, að eignir fjelagsins sjeu áður veðsettar, og því væri heimtuð meiri ábyrgð, að stjórnin gerði sig ekki ánægða með efni þessara manna, heldur vildi hafa meiri tryggingu. Þar af leiðandi er þetta alls ekki ósanngjarnt; hún getur því vel krafist, að fleiri gangi í ábyrgð fyrir þessa menn.

En svo getur vel verið, að þessi verksmiðja verði gerð að hlutafjelagi með takmarkaðri ábyrgð seinna meir, og þá er ekki gott að segja, hvort þeir væru í ábyrgð á eftir; það gæti að minsta kosti leikið vafi á því, eða jafnvel orðið dómstólamál úr því. Þess vegna álít jeg, að till. sje alveg rjett orðuð.