20.06.1918
Neðri deild: 52. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

100. mál, lán handa klæðaverksmiðjunni á Álafossi

Gísli Sveinsson:

Jeg verð að vera sammála hæstv. fjármálaráðherra um það, að ef það er meiningin, að stjórnin á ekki á sína ábyrgð að ákveða tryggingu þá, sem í till. getur, þá er óþarft að orða till. svona; þá er hægt að segja það beinum orðum, hvernig tryggingin á að vera. En jeg vil ekki, að ábyrgðin sje tekin úr höndum stjórnarinnar, vegna þess, að það er og á að vera algild regla, þegar lánsheimildir eru gefnar, sem stjórnir eiga að fara með, að þær eigi eftir sínu viti að ákveða ábyrgðina, ákveða, hvernig lánið skuli veitt, og að öðru leyti ákveða trygginguna, nema því að eins, að hún sje ákveðin í þeim lögum eða till., sem um ræðir.

Það þarf ekki heldur að orka tvímælis, þótt ekki standi í till. 1. eða 2. veðrjettur, því að reglan er, að slík ákvæði gilda ekki eingöngu 1. veðrjett, heldur og 2. eða 3. veðrjett o. s. frv. En í yfirliti því, sem háttv. frsm. (Þorl. J.) gaf, taldi, hann að nokkuð væri óveðsett eftir af því, sem verksmiðjan með öllu tilheyrandi gæti talið til veðs.

Jeg skal ekkert um það deila, því að mjer er málið alveg ókunnugt, eða ókunnugt um, hvað þar getur verið afgangs óveðsett, en hitt virðist liggja í augum uppi, að ef á að taka veðrjett í því, sem nýtt kemur, þá getur það ekki verið nema 1. veðrjettur. En óneitanlega er það dálítið valt, þó að menn vilji gera verksmiðjunni alt gott, sem hægt er, að taka þann veðrjett, sem kæmi í því, sem gera ætti við fjeð. Mjer skilst þá, að það þyrfti töluvert eftirlit með því, að þetta fje verði þá eingöngu notað til þess að byggja og bæta við verksmiðjuna með því Það er sjálfsagt rjett, að eigendurnir sjeu, úr því að það er ekki hlutafjelag, nokkur trygging, en það er alls ekki sjálf sagt, að þeir leiti ekki frekari ábyrgðar, fái menn til þess að vera í ábyrgð með sjer um þetta. Þess vegna vildi jeg slá striki yfir þetta, að binda álit stjórnarinnar eingöngu við það, að lántakandi stæði ábyrgur, heldur ættu þeir að afla sjer meiri ábyrgðar, eftir því sem stjórnin teldi þeim skylt. Jeg verð að segja, að það ætti að vera nokkurn veginn trygt að gera það, því að jeg býst við, að það sjeu fleiri en háttv. þm., sem fylgja þessu máli með talsverðri athygli, að það sje álit allmargra manna, að hjer geti verið um blátt og bert gróðafyrirtæki að ræða. (E. A.: Nei, það er bjargráðafyrirtæki).

Það á ekki heldur hjer að veita neinn styrk; það er að eins verið að tala um lán, sem á að tryggja, en það hefir líka komið fram hjá háttv. nefndarmönnum, að þeir eru ekki á eitt sáttir um þetta. Mjer virtist háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) skilja það svo, að hjer eigi, ef stjórnin telur það heppilegt, að koma fram meiri ábyrgð en eigendanna, er taka lánið, En háttv. frsm. (Þorl. J.) skýrði það nokkuð á annan veg.

Jeg hygg því, að heppilegra væri, að nefndin athugaði þetta mál enn á ný milli umr., svo að þingið þurfi ekki að ganga að því gruflandi, hver meiningin er um þetta atriði, og hvort það er til ætlunin að afgreiða það á þann hátt, að setja stjórninni einhverjar frekari skorður heldur en till. ber með sjer, eins og hún er nú.