20.06.1918
Neðri deild: 52. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

100. mál, lán handa klæðaverksmiðjunni á Álafossi

Matthías Ólafsson:

Jeg skildi ummæli háttv. frsm. (Þorl. J.) svo, sem hann væri að taka fram um veðhæfileikana, til þess að sýna hv. þingdm. fram á, að það væri ekki óglæsilegt að lána fje til þessa fyrirtækis, þegar hann er auk þess búinn að sýna fram á, að þetta er líka bjargráðaráðstöfun, en ekki á nokkurn hátt til þess að draga úr ákvæðum till. um ábyrgðina. Og till. segir að eins það, að stjórnin láni þetta fje gegn þeirri ábyrgð, er hún taki gilda, en ekkert um það, hvort eigi að taka ábyrgð þessara manna, eða heimta meira, ef hún álíti svo. Því að vilji hún heimta meiri tryggingu, þá getur hún gert það. En á hinn bóginn ef henni þykir tryggingin næg, þá mun það látið óátalið af þinginu. Þess vegna fæ jeg ekki sjeð, að nokkur ástæða sje til þess að breyta orðalagi till.