06.05.1918
Neðri deild: 17. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

36. mál, stimpilgjald

Gísli Sveinsson:

Jeg býst við, að fleiri þm. hafi farið líkt og mjer, er þeir sáu tekjuaukafrv. stjórnarinnar, að þeir hafi ekki oltið um af aðdáun. Það frv., sem hjer liggur fyrir til 1. umr., er sama frv., sem við í fjárhagsnefnd þessarar háttv. deildar í fyrra lögðum til, að samþykt yrði á þingi þá, en komst ekki fram. — Jeg ætla mjer nú ekki að fara að ræða um frv. þetta í heild sinni, heldur verður það, sem jeg segi, að eins nokkrar almennar athugasemdir.

Stjórnin hefir að vísu breytt að litlu leyti ýmsu í frv. frá því sem var, er það á síðasta þingi kom úr höndum fjárhagsnefndar, en breytingarnar eru ekki þær, að stjórnin hafi fundið nokkurn veg út úr því fjármálafeni, sem landið, að skoðun ýmsra, er sokkið niður í. Það ætti þó að virðast geta haft einhverja þýðingu, að þriggja manna stjórn er komin á í landinu, og til þess væri ætlandi, að fjármálastjórnin gæti fundið, ef ekki nýmæli, þá að minsta kosti eitthvert góðmæli, um tekjuauka. En það er kunnugt, að fyrri fjármálaráðherra tókst það ekki á síðasta þingi og þessum hefir ekki tekist það fremur.

Annað frv., sem hjer er um að ræða, frv. til laga um hækkun á vörutolli, er að eins tvöföldun á tveim liðum og lá auðvitað nærri, að grípa til þess, að hækka vörutollinn, svo að ekki ber það frv., fremur en hitt, vott um, að stjórnin hafi lagst mjög djúpt, til þess að finna nýjar tekjulindir. Bæði þessi frv. eru því síst á þann veg gerð, eða vel löguð, til þess að menn geti dáðst að uppfyndingasemi stjórnarinnar. Og er þó þess að gæta, að segja má, að þetta verk ætti að vera aðalverk hinnar sjerstöku fjármálastjórnar. Annað er það, sem kemur hálfundarlega fyrir sjónir í þessu sambandi, og það er, að stjórnin skuli ekki hafa lagt tekjuaukafrv. sín fyrir þingið þegar í þingbyrjun. Nú er ef til vill komið undir þinglok. Undir öllum kringumstæðum ætti þetta þing að vera hálfnað. Hæstv. fjármálaráðh. hefir skýrt þetta þannig, að ekki hefði verið hægt að leggja frv. fram, fyr en fjármálayfirlit það, sem hann lagði fram í þingbyrjun, hefði verið samið. En þetta er engin afsökun. Þó að stjórnin hafi ekki vitað nákvæmlega um fjárhaginn fyr en þing kom saman, þá mátti hún þó vita svo mikið, að tekjuauka þyrfti með og átti að hafa búið sig fyrir löngu undir það að hafa frv. tilbúin í tíma.

Það var öllum í landinu kunnugt um, hversu mikið var eytt. Og stjórnin átti þó ekki að vera fáfróðari en almenningur um fjárhagsástandið. Slíkt er ómögulegt að ætla henni. Frv. gátu því komið í þingbyrjun, og áttu að koma þá, einkum þegar þau eru ekki merkilegri en það, að tekið er upp, eins og jeg hefi getið um, lagafrv. frá síðasta þingi með örlitlum breytingum, og hitt er um það eitt, að hækka vörutollinn um 100%. Hæstv. fjármálaráðh. sagðist vænta þess, að Alþingi mundi taka þessu frv. vel; það kann vel að vera, að Alþingi geri það, því að háttv. þm. vita, að brýn nauðsyn er á tekjuauka og að stjórninni bar að sjá fyrir honum þegar í þingbyrjun. Jeg skil líka þessi frv. stjórnarinnar svo, að landssjórnin ætlist til þess, að þau verði að eins samþykt sem bráðabirgðalög, þótt ekki sje það tekið fram í frv. Er þess því að vænta, að menn andæfi ekki málinu sjálfu, þó að undirbúningurinn hafi verið vanræktur. Hins vegar er þó ekki að dyljast, að ýmiskonar kostnaður fellur á menn við frv. þessi. Sjerstaklega verður stimpilgjaldsfrumv. til þess, að íþyngja einstökum mönnum á ýmsan veg, auk sjálfskattsins, og kemur ekki eins alment niður, eins og hitt. Það er því ósannað mál, þótt öllum sje það ljóst, að þörf sje á tekjuauka, og þótt háttv. þm. hafi yfirleitt tekið vel í slíkt mál, að mikið fylgi fáist með frv. stjórnarinnar. Það munu fleiri vera með sama marki brendir og jeg í því, að þeir hafa búist við frv. mergjaðri en raun varð nú á.

Hæstv. fjármálaráðh. talaði mikið um það, að honum væri mikið áhugamál, að svarta hliðin á fjármálaástandinu kæmi í ljós, ekki síður en sú bjarta. Hann getur verið alveg rólegur fyrir því, að þjóðin muni ekki síður koma auga á fjárhagsvoðann, sem ef til vill er fyrir höndum; og honum átti að vera ljóst, að svarta hliðin var orðin svo áberandi, að hann bar skylda til þess að koma í tíma með eitthvað, sem lýsti upp ástandið, eitthvað, sem segja mætti um, að við gætum með góðum hug gengið til samþyktar á.