26.06.1918
Neðri deild: 56. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

106. mál, bráðabirgðalaunaviðbót handa starfsmönnum landssímans

Frsm (Matthías Ólafsson):

Við fyrri umr. var ekki tækifæri til þess að minnast á ýms atriði þessa máls, og mun jeg því nú fara nokkrum orðum um það.

Eins og sjá má í greinargerð till., hefir landssímastjóri farið fram á að hækka símagjöld að miklum mun, og síðan yrði nokkru af þeim tekjuauka varið til að bæta kjör starfsmanna símans yflrleitt. Kjör þeirra eru nú svo slæm, að símanum helst ekki á starfsfólki sínu, og besta fólkið, sem búið er að fá æfingu í starfinu, segir upp stöðum sínum hópum saman. T. d. hefir verkfræðingur símans nýlega sagt upp stöðu sinni, og tekur hann við stöðu með hærri launum í öðru landi. Og annar starfsmaður símans, sem fengið hefir æfingu, hefir nú sagt af sjer og fær stöðu hjer í bænum með stórum mun hærri launum. Það lítur því illa út fyrir landssímanum, ef hjer er ekki bót á ráðin. Þetta mál hefir nú verið athugað bæði af fjárhagsnefnd og fjárveitinganefnd, og hafa þær komið sjer saman um, að nauðsyn sje á að bæta kjör starfsmanna landssímans, en hins vegar og neyðarnauðsyn að hækka símgjöldin, til þess að fá tekjur handa símanum. Það yrðu sem allra næst 100 þús. kr. tekjuauki af þessari hækkun gjaldanna, og fer svo landssímastjórinn fram á, að af þessu fje sje varið alt að 40 þús. kr. til launahækkunar handa símafólkinu. Yrði þá tekjuafgangur af þessari hækkun um 60 þús. kr. Það hefir nú að vísu heyrst, að notkun símans myndi ef til vill minka eitthvað við hækkun gjaldanna. Það er ef til vill ekki útilokað, að alþýða mundi nota hann eitthvað minna, en hitt er víst, að kaupsýslumenn og aðrir efnaðri borgarar myndu ekki horfa í þennan kostnaðarauka, svo að jeg býst ekki við, að sá munur veiði mikill.

Þessar ástæður virðast nú, að minsta kosti frá sjónarmiði nefndarinnar, nægilegar til að fallast á till. þessa. Í henni er ekki tekið fram, að símgjöldin skuli hækkuð Nefndin áleit þetta stjórnarathöfn, sem ekki þyrfti lög til.

Eins og tekið er fram í greinargerðinni, hefir landssímastjóri gert mjög greinilega áætlun um launahækkun hvers einstaks flokks starfsmanna, og hefir sú áætlun legið frammi í lestrarsal.

Yfirleitt varð nefndin, sem fjallaði um þetta mál, að fallast á, að hækkunin væri sanngjörn. Landssímastjórinn hefir og farið fram á hækkun handa sjálfum sjer. Nefndin gat nú ekki fallist á till. hans um það, en hefir nú skrifað stjórninni brjef um endurbætur á kjörum hans. Leggur hún til, að honum sje bætt upp á annan hátt, og hefi jeg ástæðu til að ætla, að hann muni taka því vel. En ef hann fær enga bót, verður það eina ráðið fyrir hann að fara utan og leita sjer betri stöðu. Jeg vænti þess nú fastlega, að háttv. þingdm. sjái, að hjer sje varla hægt að komast hjá að gera það, sem farið er fram á. Það sjá allir, að það er óhugsandi, að síminn geti haldið fólki sínu, sem æft er orðið, meðan launakjörin eru eins og nú, og hitt er ekki heppilegt, að altaf sje verið að skifta um og stöðugt komi óvant fólk. Og ef það verður ofan á að hækka gjöldin, er hætt við, að fólk geri þær kröfur, að afgreiðsla við símann verði ekki lakari, heldur hitt.

Sýnist því í alla staði óhjákvæmilegt, að mál þetta nái nú fram að ganga. Jeg sje svo ekki ástæðu til að tala lengra nú. Ef svo ólíklega skyldi fara, að mál þetta sætti andmælum, þá áskil jeg mjer rjett til þess að verja gerðir nefndarinnar. Hún hefir haft mikið fyrir því að rannsaka málið og komst öll að þeirri niðurstöðu, að þetta væri eina úrræðið.