26.06.1918
Neðri deild: 56. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (1275)

106. mál, bráðabirgðalaunaviðbót handa starfsmönnum landssímans

Frsm. (Matthías Ólafsson); Jeg get ekki betur sjeð en að háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) hafi einmitt sannað það, er hann vildi ósanna, með öðrum orðum, að nefndin hafi látið það uppi, að hún væri samsek í því, að þessi till. er fram komin, og að hún væri sömuleiðis samsek í því, að veitt er af þessu fje. Þetta kalla jeg aðalatriðið, og jeg hefi ekki sagt, að neitt annað ætti að vera það, en jeg verð að halda því fram, að betra væri að láta landssímastjórann hafa óskorað vald til þess að ákveða kaup starfsmanna landssímans, heldur en að þurfa sí og æ að leita á náðir fjárhagsnefndar og fjárveitinganefndar til samans, um það að mega greiða starfsmönnum símans sæmilegt kaup, til þess að geta haldið þeim.

Hvað þetta orðalag snertir, sem um hefir verið talað í þessari till., þá veit maður, að þessu líkt hefir verið „praktiserað“ fyr og gefist sæmilega, að því leyti sem mjer er kunnugt.

Hvað það snertir, að taka málið út af dagskrá, þá get jeg í raun og veru fallist á það, í þeirri von, að menn komi þá með einhverjar hyggilegar till., en hitt er jeg vondaufur um, að nefndin geti gengið að því, ef á að fara að rugla að öllu leyti tillögu landssímastjóra.