26.06.1918
Neðri deild: 56. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

106. mál, bráðabirgðalaunaviðbót handa starfsmönnum landssímans

Pjetur Ottesen:

Háttv. frsm. (M. Ó.) hefir þó loksins gengið inn á, að málið væri tekið út af dagskrá, og er það allvirðingarvert, eftir því sem honum fórust orð í miðræðu sinni.

Það er nú komið í ljós, af því sem háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) tók fram, að háttv. frsm. (M. Ó.) hefir sagt nokkuð mikið viðvíkjandi fjárhagsnefndinni um þetta mál; álit þeirrar nefndar hljóðar, eins og fram var tekið, á þann veg, að nefndin fellst á, að símamönnum sje veitt einhver launauppbót, án þess að binda sig við neina upphæð, og er það dálítið annað.

En viðvíkjandi því, sem jeg tók fram áðan og háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) árjettaði, að eins og þetta er orðað í till., þá eru það till. landssímastjóra sem eiga að gilda; því er alveg slegið föstu. Stjórnarráðið á ekkert að hafa um þetta að segja. Það er því sjálfsagt að koma fram með brtt. í þá átt, að landssímastjórinn hafi að eins tillögurjett um málið.

En viðvíkjandi því, sem háttv. frsm. (M. Ó.) tók fram, að maður tæki á sig ábyrgð með því að athuga þetta mál dálítið ger, er það að segja, að jeg þoli ósköp vel þá brýningu. Jeg sagði reyndar ekkert í þá átt, að jeg væri á móti uppbót til símafólksins, sem jeg teldi hæfilega. En jeg vil fá að sjá skýrslu frá landssímastjóra um það efni, hvernig hann hafi hugsað sjer að skifta þessu fje.

Háttv. frsm. (M. Ó.) sagði, að úr því að mjer hefði ekki unnist tími til þess að athuga þetta mál, þá mundi það trauðla verða úr þessu. En jeg vil segja honum, að það er ekki hægt fyrir þingmenn að athuga þau skjöl, sem eru grafin niður hjá fjárveitinganefnd, en þessi plögg hafa ekki legið frammi í lestrarsalnum.

Hæstv. atvinnumálaráðherra tók það fram, að stjórnin hefði þegar gefið út reglugerð um símgjaldahækkunina. Við því er auðvitað ekkert að segja, annað en það, sem jeg hefi áður tekið fram, en það hefir þó verið venjan hingað til, að þessi stjórn hefir ekki viljað taka á sig mikla ábyrgð, með því að afgreiða mál án þess að bera þau undir þingið. En nú hefir hún brugðið út af venjunni og í þessu máli tekið þá rögg á sig að ráða málinu til lykta án þess að leita fyrir sjer — að minsta kosti opinberlega — um vilja þingsins.