05.07.1918
Efri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

106. mál, bráðabirgðalaunaviðbót handa starfsmönnum landssímans

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg get nú sparað mjer mjög margt af því, sem jeg vildi annars sagt hafa um þetta mál, því að jeg hygg, að það sje nú nokkurn veginn fullrætt. En það voru nokkur ummæli í ræðu háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.), sem jeg get ekki fallist á og verð að andmæla.

Hann gat þess um kaup símafólksins, að þótt það væri ekki hærra, þá væri það sæmilegir vasapeningar. Þótt nú svo væri, að högum sumra þessara starfsmanna væri svo háttað, að þeir þyrftu ekki að nota það sjer til framfæris, þá getur Alþingi engan veginn fallist á slíkan skilning. Það er bersýnilegt, að slíkt fyrirtæki sem landssíminn krefst góðrar starfrækslu, svo að afgreiðslan sje í góðu lagi. Og þegar nú er farið fram á þá breytingu, að hækka notagjald símans, þá verður Alþingi að sjá um, að stjórn landssímans sje sem best og afgreiðsla gangi sem greiðast. Og það verður best gert með því, að þeir, sem við símann vinna, fái svo góða borgun, að þeir vilji eitthvað á sig leggja fyrir stofnunina.

Jeg hygg annars, að háttv. tillögumenn hafi meira lítið á þá „procent“-hækkun, er verður samkvæmt till. landssímastjórans, en að kaupið sje svo mikið. Hjer varðar ekki um, hver hækkunin verður af hundraði, heldur hitt, hvert kaupið verður. Og þótt það hækki upp í 70—100 kr. á mánuði, þá er enginn ofhaldinn af því. Og þótt sumt af fólkinu þurfi peninganna ekki beint sjer til lífsframfæris, þá getur Alþingi ekki reiknað með slíku, heldur hinu, að það er varla að vænta, að nokkurt starf sje vel rækt nema það sje borgað sómasamlega. Það segir sig sjálft, hvað 70 kr. eða minna muni hrökkva langt fyrir lífsnauðsynjum. Þá er auðsjeð, hvort 40 kr. muni nægja, eða hvort halda menn, að það fullnægi lífsþörfum unglinganna við símann, sem sumir hafa 20 kr., þótt aðrir hafi hærra. Þeir, sem hafa 20 kr. kaup á mánuði, mega vera ljettfættir, ef þeim eiga að duga 20 kr. í skófatnað á mánuði.

Viðvíkjandi því, sem háttv. þm. Barð. (H. K.) sagði um orð háttv. þm. Dala. (B. J.), þá er það öldungis víst og sannanlegt, að ef að eins brýnustu nauðsynjar manna eru teknar, þá er krónan ekki meira en 30 aura virði. (H. K.: Já, en ekki í öllu). Það dugir ekki heldur að taka einstakar þarfir manna, heldur verður að reikna þær, sem mega sín mest mönnum til framfæris.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, en vænti, að háttv. þingdm. geri hið besta í þessu máli.