14.05.1918
Neðri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (13)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Jeg skal taka það fram strax, að það er enginn mælikvarði fyrir þörf eins sveitarfjelags, þótt það taki á sig þær byrðar, sem stjórnarfrv. setur að skilyrði fyrir styrkveitingunni, því að þar undir má skjóta ýmsum öðrum útgjöldum, sem ekki heyra beint til dýrtíðarhjálp, t. d. allri annari fátækrahjálp á þessu tímabili. Og það er orðið alkunnugt, að þegar á að hafa fje út úr landssjóði, þá er gengið eins langt og hægt er. Líklegt er einnig, að miklu meira þurfi til dýrtíðarhjálpar en 15 kr. á mann. Jeg er að minsta kosti hræddur um, að svo geti farið. Þegar litið er á þá hjálp, sem veitt var hjer í fyrravetur, þá geta menn fljótt gengið úr skugga um það. Það, sem veitt var hjer í bænum til dýrtíðarhjálpar, var:

Lækkun á kolaverði, úr 300 kr. tonnið niður í 125 kr. að meðaltali, alls kr. 214.000. Auk þess dýrtíðarvinna bæjarins, sem nam á annað hundrað þúsund, eftir því sem mjer er sagt. Til hennar var fengið lán hjá stjórninni, að upphæð kr. 150.000. Þar við bætist svo dýrtíðarvinna landssjóðs. Útgjöldin til hennar voru brúttó nálægt kr. 90.000. Meginið af þeirri vinnu gekk hjer til bæjarins.

Þetta er til samans kr. 454.000.

Beini styrkurinn, sem sje niðurfærsla á kolaverði, nemur alt að 15 kr. á mann; hitt nemur út af fyrir sig fullum 15 kr. á mann. Það er því auðsjeð, að þessi upphæð stjórnarfrv. hrekkur ekki langt, einkum ef að harðnar enn, sem búast má við, og af þessari upphæð á þó landssjóður ekki að borga nema 1/3.

Þá skal jeg víkja aftur að eftirlitsmönnunum. Háttv. minni hl. er mótfallinn því að hafa þá. En samt stingur hann upp á því að hafa eftirlitsmenn. Hann ætlast til, að leitað sje álits bjargráðanefnda um þörfina. Í þessu, eins og reyndar í fleiru, virðist háttv. minni hl. hallast mjög í áttina að till. okkar og er hjer alveg kominn á okkar mál með það, að eftirlit sje nauðsynlegt, þar sem hann ætlast til, að bjargráðanefndirnar taki að sjer þetta eftirlit. Jeg tel það vott um það, að tillögur okkar sjeu á rökum bygðar, er jafnvel andstæðingurinn kemst á sömu skoðun. í bjargráðanefndum sitja 2 menn, auk sýslumanns, í hverri sýslu, og eftirlitið kostar ekki minna fyrir það, þótt þeir framkvæmi það, heldur en þótt fengnir væru sjerstakir menn til þess, hvort sem þeim nú er borgað fyrir það eða ekki. Jeg fyrir mitt leyti geri það ekki að kappsmáli, hvort bjargráðanefndirnar framkvæma eftirlitið, eða aðrir menn. Þeir geta haft góð skilyrði til þess, þó að sömu tveir mennirnir eigi þá að hafa eftirlit með heilli sýslu.

Þá var háttv. þm. (J. B.) að tala um dýrtíðarvinnuna. Jeg vík að henni síðar og ætla því að hlaupa yfir hana hjer.

Þá var sami háttv. þm. að afsaka Reykjavík út af dýrtíðarhjálpinni, sem henni var veitt, en það var óþarfi. Jeg nefndi Reykjavík alls ekki í þeim tilgangi, að dæma um það, hvort hjálpin hefði verið nauðsynleg eða ekki, heldur að eins til að draga upp mynd af því, hvernig dýrtíðarhjálpin lítur út í framkvæmdinni, og þar tók jeg Reykjavík sem ábyggilegasta dæmið. Jeg sagði ekki annað en í samræmi við það, sem stendur í nál. um kolauppbótina, að hún hefði náð heldur skamt, — annaðhvort verið of lítil, eða skift óheppilega. Það var aðalatriðið að nefna Reykjavík sem dæmi, en alls ekki, eins og áður er á vikið, telja eftir eða dæma um nauðsynina.

Þá kem jeg að síðustu brtt. á þgskj. 89, till. um lán til stuðnings sjávarútveginum. Þessi till. kom ekki til umræðu í nefndinni. Háttv. minni hl. bar hana alls ekki fram þar. Nefndin hefir því ekki haft till. til umhugsunar eða umræðu.

Hæstv. fjármálaráðh. taldi tormerki á því, að nokkurt fje væri handbært til þess; því er líklega ekki þörf á að ræða tillöguna. Það væri að vísu miklu betra að þurfa ekki að tala um beina hjálp, heldur eingöngu um stuðning til atvinnuveganna. Það væri óneitanlega æskilegri lausn á dýrtíðarmálunum. En ef leggja ætti fram þann stuðning, sem eitthvað dregur, þá þyrfti til þess miljónir, margar miljónir. En þingið hefir ekki sjeð sjer fært að gera slíkt til nokkurra muna, en hefir í þess stað tekið þá stefnu, að reyna að varna sárum sulti, ef til kæmi, og annari þröng. Að láta starfsmenn landsins hafa svo litla launauppbót, og enn fremur að hjálpa svo þeim, sem ekki geta bjargað sjer, til þess að lifa, það hefir verið stefna þingsins. Hærra hefir ekki verið risið, og hærra verður varla risið, af þeirri einföldu ástæðu, að það vantar fje. Ef nægu fje væri úr að spila, mundi hvorki jeg nje aðrir vera því mótfallnir, að farin væri fullkomnari leiðin til að afstýra dýrtíðarvandræðunum. En þá leið getum við ekki farið. Okkur vantar fje.

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) hártogaði orð mín um það, að landið hefði ekki fengið neinn dýrtíðarskatt, engan beinan hluta af dýrtíðargróðanum. Jeg sagði ekki annað en það, sem stendur í nál., að það væri að seilast um hurð til lokunnar að sækja slíka dýrtíðarhjálp í landssjóð, þar sem hann engan dýrtíðarskatt hefði á móti. Og á öðrum stað í nál. er komist svo að orði:

„Hvað hefir landssjóður borið úr býtum af dýrtíðargróðanum ? Ekkert, sem teljandi er, í samanburði við það, sem þarf til dýrtíðarhjálpar, þegar í verulega neyð er komið“.

Þegar við gáum að því, að sá eini, teljandi dýrtíðarskattur, sem landssjóður hefir fengið, er verðhækkunartollurinn af útfluttum vörum, sem nú er niður fallinn, þá sjest, að hann hrekkur ekki til að standast dýrtíðaruppbót starfsmanna landsins og önnur bein útgjöld viðvíkjandi dýrtíðinni. Hann er 1917 ekki einu sinni fyrir kolaafslættinum, hvað þá heldur meiru. Á síðasta þingi var þessi skattur feldur niður, eins og menn muna. Það er því rjett, sem jeg hefi sagt og stendur í nál., að tekjur landssjóðs af dýrtíðinni eru litlar í samanburði við útgjöldin. Þegar því nú er verið að ræða um dýrtíðarhjálp, þá kemur enginn dýrtíðarskattur á móti. Þeim litla dýrtíðarskatti, sem lagður hefir verið á, er búið að eyða. Tekjur af dýrtíðinni eru þá engar, nema hækkun á tekjuskattinum, sem nemur litlu.

Þá er ekki fleira að athuga hjá háttv. 1. þm. Reykv. (J. B), og vil jeg snúa mjer að hæstv. fjármálaráðherra og gera nokkrar athugasemdir við ræðu hans. Hjá honum kom fram sami misskilningurinn eins og hjá háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.), að hjálpin sje minni eftir till. meiri hl. en stjórnarinnar. Þessu er jeg búinn að svara. Jeg hefi sýnt fram á, að það er eintómur misskilningur. En hann (J. B) var líka að tala um lánaaðferðina, um það, hvort heppilegra muni að lána eða styrkja. Jeg skal játa það, að það er mest undir fjármálaráðherranum komið, að hve miklu haldi það kemur að veita lánsheimild. Það fer alt eftir því, hvort lán fæst til þess og hvernig með lánsheimildina er farið. Ef hún er notuð á þann hátt, sem meiri hl. bjargráðanefndar ætlast til, þá geta ekki verið skiftar skoðanir um það, að meiri hjálp verður að till. hennar en stjórnarinnar.

Það, sem hæstv. fjármálaráðherra hafði aðallega að athuga við lánsaðferðina, var það, að hún væri ekki notuð annarsstaðar, að minsta kosti ekki í Danmörku. Þar er ólíku saman að jafna. Þeir eru komnir lengra á veg en það, að hjálpa í neyð. Þeir hafa ekki farið þá leiðina, og vel má vera, að þeirra aðferð gefist vel í Danmörku, en okkur er hún ofurefli. Þeir hafa tekið upp þá aðferð, að halda niðri verði á aðfluttum vörum, til þess að vinnan þyrfti ekki að verða of dýr. Með því móti er líka hægt að halda innlendum afurðum í lægra verði. Það var sýnt fram á það á þinginu í fyrra, þegar tillögur um sölu á helstu nauðsynjavörum undir verði voru til meðferðar hjer, að þessi aðferð mundi hafa kostað okkur 6—8 miljónir. Við sjáum nú, að fyrst ekki er hægt að fá eina miljón til dýrtíðarlána, þá mundi ekki frekar vera hægt að fá margar miljónir til afsláttar á vöruverði. Á því leikur enginn efi, að sú aðferðin er mjög dýr. Ef til vill hefði hún reynst vel hjer, ef hún hefði verið framkvæmanleg, en um það er ekki að tala. Hún er okkur ofurefli.

Þar að auki er þess að gæta, að Danir hafa haft lag á að ná í tekjum í ríkissjóðinn. Þeir hafa lagt á dýrtíðarskatta, háa skatta, og gengið mjög hart að mönnum. Sjerstaklega hafa þeir gert sjer far um að ná skatti af nýjum gróða, þeim gróða, sem stríðið og dýrtíðin sjálf hefir skapað. En hvað höfum við gert í þessu efni? Jeg var einn af þeim, sem börðust fyrir því á síðasta þingi, að halda í þá einu tekjugrein, sem landssjóður hafði af verðhækkuninni, en þingið drap næstum allar tilraunir, sem gerðar voru til þess að láta landssjóð ná í dýrtíðargróðann. Þessi eini dýrtíðartekjustofn var nú ekki heldur neinn gróðaskattur, heldur útflutningsskattur, og náði því ekki beinlínis tilgangi sínum. Þingið hefir alveg gefist upp við það að ná í dýrtíðargróðann, og því er í raun og veru ekki um annað að gera fyrir það en leggja niður rófuna með allar meiri háttar tilraunir til dýrtíðarhjálpar og varpa áhyggjum sínum á sveitarstjórnirnar. Þær eiga hægra með að ná í gróðann. Það er, eins og einn háttv. þm. komst að orði í þessari deild í fyrra, að fyrst er að reyna þolrifin í sveitarfjelögunum áður en gripið er til annara úrræða. Úrræðin, sem þá verður að grípa til, eru lán úr landssjóði, ef fje er fáanlegt. Þessi styrkur, sem stjórnarfrv. fer fram á, er svo lítill, að ekki dregur hann í ítrustu neyð neitt að mun, eins og oft er fram tekið. Fyrir sveitarfjelögin verður hjálpin miklu meiri eftir tillögum meiri hlutans, og þegar ekki er hægtað hjálpa svo að um muni á annan hátt, þá á heldur að hjálpa með lánum en að hjálpa ekki.

Þá var hæstv. fjármálaráðherra að reikna út þá upphæð, sem veitt yrði að lánum, eftir tillögum meiri hlutans, og komst að þeirri niðurstöðu, að hún yrði 1800 þús. kr. eða alt að 2 miljónum. Jeg er, satt að segja, öldungis hissa á þessum útreikningi. Ef menn líta á nál., geta menn fljótt gengið úr skugga um það, að nefndin byggir á alt öðrum grundvelli. Nefndin gerir ekki ráð fyrir, að til þess geti komið, að öll sveitar- eða bæjarfjelög þurfi á þessum lánum að halda, eða geti fengið þau, þegar þess er gætt, að sveitarfjelag getur ekki fengið neitt lán fyr en mjög er sorfið að gjaldþoli þess. Og þegar svo er sorfið að öllum sveitarfjelögum landsins, eða flestum, á hvers ábyrgð er þá hægt að fá fje til útlána samkvæmt þessum lögum? Hvað þýðir þá líka 5 kr. styrkur úr landssjóði fyrir nef hvert, til þess að afstýra neyð, þessi dropi í hafinu? Hvað þýða þá jafnvel þessi lög?

Hæstv. fjármálaráðherra hjelt, að lánskjörin myndu freista manna til lántöku. Hann hefir ekki athugað, að aðgangur að þeim er mjög takmarkaður. Hann bygði einkum á því, að lánin standa vaxta- og afborganalaus fyrsta árið. En það freistar manna ekki, er þess er gætt, að vextirnir koma eftir 1 ár og lánin eiga svo að borgast upp á mjög skömmum tíma. Hitt gæti þá frekar freistað manna, að þeir byggjust við, að lánin yrðu gefin upp, en á því getur verið hætta um öll dýrtíðarlán.

Það á að geta verið vandalaust fyrir stjórnina að sjá um, að lán þessi komi þar niður, sem þörfin er mest og fyllilega brýn. Jeg skildi aldrei það, sem hjer stendur í stjórnarfrv.:

„Sveitar- og bæjarfjelögum veitist heimild til að verja úr sveitar- eða bæjarsjóði, auk venjulegra útgjalda, upphæð, er þó ekki nemi meiru en 15 kr. á hvern mann í sveitarfjelaginu“ o. s. frv.

Jeg skil ekki, að þessarar heimildar þurfi við. Jeg skil ekki annað en að hvert sveitarfjelag hafi heimild til að verja til hjálpar mönnum í verulegri neyð því, er nauðsyn krefur og unt er fram að leggja. Nú heldur hæstv. fjármálaráðherra, að þessi ákvæði stjórnarfrv. og framlagið úr landssjóði miði að því, að sveitarfjelögin leggi fram sina krafta sem best til dýrtíðarhjálpar. En það er ekki mikill vandi að nefna á sveitar- og bæjarreikningum eitt og annað „dýrtíðarhjálp“, sem ekki er þó hjálp í „verulegri neyð“, og slíkar upphæðir sanna ekkert um, hvernig gjaldþoli manna er komið í sveitinni eða bænum, eða hvernig hagurinn er í heild sinni, og það er þó mest um vert. Nei, jeg fæ ekki sjeð, að í frv. stjórnarinnar sje stefnt í þá átt, að sveitarfjelögin bjargist sem best. En þess er beint krafist í frv. okkar meiri hlutans, að þau sveitarfjelög einungis fái slíka hjálp, sem búin eru að leggja fram alla sína krafta til að bjargast sjálf.

Þá mintist hæstv. fjármálaráðherra á fjármálaástandið, og sagði hann, að lán þau, sem tilskilin eru í till. meiri hl., mundu ef til vill ófáanleg. Það veit jeg ekki; slíkt er mest undir stjórninni komið. En það vakti þó fyrir nefndinni, að ef til vill yrðu lán vandfengin, og því vildi hún fara mjög varlega og skorða lán við 20 krónur á íbúa. En ef slík dýrtíðarlán verða veitt, þá álítum vjer það minsta, sem hægt er til að taka, vera 1 miljón króna, og ef stjórnin getur ekki útvegað það lán, þá tekur það auðvitað ekki lengra. Þá er landsstjórnin löglega afsökuð frá því að geta hjálpað með fjárframlögum og reynir þá má ske að snúa sér að öðrum bjargráðum. Nefndin hefur þó vænst þess, að stjórnin hafi einhver ráð, og vonar það enn, en heldur því þó ekki fram með til streitu, síst gagnvart hæst. fjármálaráðherra.

Annars skal ég ekki þrefa um þetta, en verð að segja, að þessi 5 króna styrkur er ekkert annað en málamynda handaþvottur, sem ekki er vert að tala um. En þetta segi ég frá eigin sjónarmiði.

Hv. frsm. minni hl. (J. B.) hefur víst skilið svo orð mín um kolauppbótina að jeg hafi verið að finna að því, að ódýrum kolum var úthutað til fátækari manna. En jeg var ekki að finna að þessu. Jeg sagði að eins, að hún hefði náð skamt, og það er víst sannmæli. En það sagði jeg til þess að sýna, hve mikið fje þyrfti til þess að vinna bug á dýrtíðinni, hve mikil neyslan er orðin í landinu, á ýmsa lund, og hve mikið þarf til þess að bæta úr, er menn tekur að skorta. Nefndin áleit það algerlega fyrir utan sitt hlutverk í þessu sambandi að finna að kolaúthlutuninni.

Þá mintist hæstv. fjármálaráðherra, sem eðlilegt var, á till. meiri hl. um breytta tilhögun á dýrtíðarvinnu. Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hefir nú að miklu leyti tekið af mér ómakið að tala nánar um það, því að hann hefur skýrt það fyrir hv. deild, að það væri fult svo góð tilhögun, að sveitar- og bæjarstjórnir tæku að sér að sjá um þessa dýrtíðarvinnu, en hefðu að eins fulltingi landsstjórnarinnar á bak við sig. En hæstv. fjármálaráðh. spyr: Hvað á að kaupa? Hve mikið á að kaupa? Hvaða verði á að kaupa það, sem keypt er? Það hefði nú verið ósköp eðlilegt, að hann spyrði sjálfan sig þannig. Hann hefir sjálfur á síðastliðnu ári ráðist í annað eins með dýrtíðarvinnu og hjer er ráð fyrir gert. Fyrst og fremst hefir hann ráðið, eða hæstv. landsstjórn, hvað unnið hefir verið. Hún hefir líka ráðið, hve mikið hefir verið unnið, eða í dýrtíðarvinnu lagt, og enn fremur hefir hún ráðið verði vinnuafurðanna, með því að ráða kaupgjaldi verkamannanna.

Víst er um það, að mikið hefir verið fundið að þessum framkvæmdum stjórnarinnar; það hefir heyrst bæði í samtali við einstaka menn og í blöðum. En meiri hlutinn hefir ekki gert sig að dómara um það, á hverjum rökum þessar ákúrur eru bygðar. Slíkar ráðstafanir orka altaf tvímælis, og er það óheppilegt og óþægilegt fyrir stjórnina, og því betra að losa hana við þær, því að þær liggja líka fjær hennar verksviði en bæjar- og sveitarstjórna. En þetta getur líka komið öldungis í sama stað niður, að því leyti, að landssjóður styrkir, ef hann hefir fje. Og það er sýnt í nál., að styrkveitingin til dýrtíðarvinnunnar í Reykjavík í vetur hefði komið alveg í sama stað niður, þótt bæjarstjórn hefði staðið fyrir verkinu. Landssjóður eða stjórnin hefði keypt grjótmulninginn af bænum og gert „akkorðs“ samning við hann um þennan vegarspotta. Það virðist liggja í augum uppi, að landsstjórnin geti ekki staðið fyrir dýrtíðarvinnu beint fyrir landssjóð, nema þar sem um landssjóðsfyrirtæki er að ræða. Þess vegna yrði slík landssjóðsvinna á örfáum stöðum. Nú er það ekki heppilegt fyrir menn að koma úr fjarlægum hjeruðum til þess að sækja þessa dýrtíðarvinnu, og yrði þá að eins á einstöku stöðum, sem komið yrði á slíkri dýrtíðarvinnu. Og á þessum fáu stöðum getur sú tilhögun komið í staðinn, sem meiri hl. leggur til.

Jeg vona nú, að stjórnin athugi þetta og hæstv. fjármálaráðh. reyni að skilja. Það er nauðsynlegt, ef þessar till. verða samþyktar, að stjórnin skilji, og vilji skilja, hvað og hvernig það er, sem hún fær til meðferðar.

Mjer heyrðist hæstv. fjármálaráðh. gefa í skyn, að fjárhætta gæti stafað af afskiftum stjórnarinnar af dýrtíðarvinnunni, þeim er meiri hl. leggur til. Það get jeg ekki skilið, að slík tilhögun verði til þess, að fje fari forgörðum. Þvert á móti þykist jeg viss um, að það reynist mun ódýrara að kaupa afurðir þessarar vinnu, t. d. af Reykvíkingum, heldur en ef hún stendur fyrir henni á líkan hátt og í vetur.

Jeg ætla þá ekki að fara meira út í ræðu hæstv. fjármálaráðh. En þá vil jeg víkja að þeim brtt., sem komið, hafa frá einstökum hv. þm. Er þá fyrst brtt. á þgskj. 94, frá hv. 1. þm. Árn. (S. S.). Vjer höfðum efni hennar til meðferðar í nefndinni, en gátum ekki fallist á, að landsstjórnin færi að kaupa vinnu austur í Árnessýslu. Auk þess álítum vjer ekki eins mikla þörf á dýrtíðarvinnu í landbúnaðarhjeruðum, eins og Árnes- og Rangárvallasýslu. Ef til vill mætti senda til vinnunnar menn úr Reykjavík. En sem sagt hefi jeg ekki umboð til þess að tala um till. fyrir nefndarinnar hönd, en ekki get jeg fallist á hana í svipinn, en annars verður hver nefndarmaður að meta hana eins og honum líst rjett vera.

Svo er brtt. á þgskj. 124, frá hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Jeg get ekkert um till. sagt fyrir nefndarinnar hönd; hún hefir ekki heldur haft tök á því að athuga hana. En frá mínu sjónarmiði er eitt við hana að athuga, og það er það, að hún er brtt. við stjórnarfrv., en ekki meiri hl., svo að það er best að láta hana liggja milli hluta.