06.05.1918
Neðri deild: 17. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

36. mál, stimpilgjald

Bjarni Jónsson:

Jeg hafði satt að segja ekki búist við miklum tekjuaukafrv. á þessu þingi. og er yfir höfuð á alt öðru máli en háttv. sessunautur minn „sálugi“ (S. St.), sem nú er dauður. Jeg tel þjóðina ekki færa um, að leggja á sig mikil gjöld umfram það, sem orðið er, þótt jeg verði einna helst að fallast á stimpilgjaldsfrv., með því að það gjald kemur í höfuðatriðunum helst niður á þeim, sem best hafa beinin. Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) neitaði því, að hann hefði gert árás á þingið í fyrri ræðu sinni, en sagði þó um leið, að þingið hefði skilið illa og hirðuleysislega við fjárlögin, og þess vegna hefði sjer fyrst orðið fyrir að hugsa, er þetta þing var kallað saman, að það væri gert vegna fjárhagsins. Hvað er það annað en árás á þingið, að segja, að það skilji illa og hirðuleysislega við stærstu málin? Og hvað er það annað en árás á stjórn landsins, að komast þannig að orði um viðleitni hennar í að bjarga landinu fram úr ógöngum þeim, sem af heimstyrjöldinni stafa, að hún leggi fyrir þingið gömul tekjuaukafrumv., skrifuð upp úr Alþingistíðindunum, í stað þess að koma með nýjar tekjulindir. Það er undarlegt af háttv. þm. (S. St.) að vera að tala um nýjar tekjulindir, þegar helst lítur svo út, að allar gamlar tekjulindir ætli að lokast. Og þótt það sje mikilvægt, að hagur landsins standi vel, þá er annað mikilvægara, að landsmenn sjálfir þurfi ekki að þola neyð og jafn vel hungur. Standi hungur og neyð fyrir dyrum, án þess að reynt sje að ráða bót á, þá er landsmönnum dauði vís, en tekjuhalli er ekki dauði, heldur skuld, sem má borga síðar. (S. St.: Með hverju?). Sá, sem aldrei tekur lán, til þess að sjá sjer og sínum farborða, þegar neyðin steðjar að, hann fer í hundana; hinn hefir sig áfram, sem með lánunum klífur fram úr örðugleikunum, meðan þeir sækja að, og rjettir við, er þeim er lokið.

Það er undarlegt, að sami háttv. þm., sem ekki þekkir önnur ráð, til þess að rjetta við hag landsins en að kreista sem mest fje út úr landsmönnum, skuli vera formaður í bjargráðanefnd. Það er rjett, að það eru bjargráðin, næst sjálfstæðismálunum, sem gert hafa það nauðsynlegt að kalla saman þetta þing, og jeg býst við því, áður en þingi lýkur, að þá munum við spyrja hina háttv. bjargráðanefnd og formann hennar, hvaða ráð hún muni telja heppilegust til bjargar fólkinu í landinu, en þá býst jeg við, að háttv. þm. (S. St.) segi annað en að það verði gert með því, að pína fje út úr landslýðnum, sem á að fara að bjarga. (S. St.: Jeg sagði það aldrei). Það þýðir ekki að þræta fyrir það, og töluð orð verða ekki aftur tekin.

Sami háttv. þm. (S. St.) talaði mikið um það, hve sorglegt hefði verið, að verðhækkunartollurinn var feldur í fyrra, og spurði, hvers vegna stjórnin ekki sagði þá af sjer. Finst honum í raun og veru, að það væri ástæða fyrir stjórn að segja af sjer, þó að við yrðum ekki svo langt leiddir, að leggja verðhækkunartoll á íslenskar afurðir, þar sem framleiðslukostnaðurinn hefir stigið margfalt meira en verðið. En þetta var nú djásnið, sem var drepið í fyrra. Verðhækkunartollurinn var altaf ranglátur, því að hann kom niður á tveim stjettum í landinu, og það á þeim, sem mest greiddu í landssjóðinn fyrir. Auk þess var hann svo vitlaus í eðli sínu, að ekki getur vitlausara, þar sem gjald var lagt á hækkun verðsins, án nokkurs tillits til framleiðslukostnaðar. Sök sjer hefði verið, ef lagt hefði verið á ágóða, í stað þess að láta menn gjalda skatt af skaða sínum.

Sami hv. þm. (S. St.) kvað undarlegt, hversu seint frv. koma frá stjórninni. Jeg vil skoða þennan drátt þannig, að stjórnin hafi viljað yfirvega nákvæmlega og skoðað huga sinn um það, hvort það væri sæmilegt, að koma fram með nokkur tekjuaukafrumv. á þessu þingi, þegar þjóðin horfir fram á hungur. Honum þótti leiðinlegt, hve þetta þing væri búið að standa lengi, og þó lítið gert. Jeg skal kannast við það, að háttv. bjargráðanefnd, sem hann er formaður í, hafi enn lítið gert, eða látið frá sjer heyra, en vil ekki áfellast hann fyrir það. Mjer er kunnugt um, að hann hefir haft forföll — verið veikur — og að hann hefir þó haldið fundi heima hjá sjer í nefndinni; vænti jeg, að árangur þeirrar starfsemi komi þó að minsta kosti í ljós áður en langt um liður. — Annars var það eftirtektarvert, að það fyrsta, sem þessi hv. þm. (S. St.) gerði, eftir að hann kom á þing, var að tala um, að hann þyrfti að fara heim. Og þó veit hv. þm. (S. St.), að stjórnin var til neydd að kalla saman þing, einmitt nú, þegar svo mörg vandamál ber að höndum, og að það á að vera henni til trausts og tryggingar.

Við skulum t. d. setja svo, að verslunarsamningar þeir, sem nú standa yfir við England, færu út um þúfur, hvað verður þá? Það, að öllum aðflutningum verður lokið, og að við verðum að búa við sömu kjör og á verstu einokunartímum. Þá verða búmennirnir á þingi að koma með ráð til bjargar og mega því síst um það hugsa nje tala, að komast burt af þingi sem fyrst.

Stjórnin hefir það sjer til afsökunar í þessu máli, að hún veit ekki fremur en aðrir, hvað upp á teningnum verður í þessum samningum. Það er því skiljanlegt, að hún vilji ekki taka svarið upp á sínar herðar, og þó að þingið hefði verið kallað saman til þess eins, að athuga svör Englendinga í þessu máli, þá hefði það eitt verið fullnægjandi ástæða.

Frá búmannsins sjónarmiði er það líka skýrt, að þingið mátti ekki koma seinna saman. Bjargræðistíminn fer nú í hönd og á þeim stutta tíma á fólkið að búa sig undir veturinn. Til þess að sá undirbúningstími geti orðið að gagni, þurfti þingið, í samráði við stjórnina, að geta út hagkvæmar fyrirskipanir og sjá um, að þjóðina skorti ekki þau skilyrði, sem þarf til þess, að framleiðslan geti hepnast. Ýmislegt, sem sjávarútveginum tilheyrir, þarf þingið að útkljá sem fyrst, og nú liggur fyrir því fráfærnafrumv. stjórnarinnar, sem á að gilda fyrir sumarið í sumar, ef það kemst í gegn. Og fleira þessu líkt mætti upp telja. Það er nú í mesta lagi ½ mánuður eða 3 vikur þangað til maður verður að vera kominn að niðurstöðu um þetta. En jeg held, að þingið sje ekki enn komið að neinni niðurstöðu. Stjórnin hefir því kallað þingið of seint saman, ef nokkuð er.

Jeg verð að vera mildur í orðum við hinn hv. þm., framliðna þm. (S. St.), sem jeg beini aðallega orðum mínum til, en get þó ekki stilt mig um að minnast á tvö atriði; annað þeirra mintist háttv. þm. (S. St.) sjálfur á og kallaði Öskjuhlíðarfarganið; hitt er frá sjálfum mjer runnið. Mjer verður þá fyrst fyrir að spyrja: Hvað er þetta Öskjuhlíðarfargan? Því er fljótsvarað. Svo var mál með vexti, að menn urðu varbúnir við vetrinum síðasta, og sáu ekki fram á annað en að lítt gerlegt mundi að halda lífinu í þeim 1/4 landsmanna, sem saman eru komnir hjer í Reykjavík, nema fólkið fengi peninga, sem það gæti bjargast með fram úr mestu örðugleikunum. Og úr því að bær og land varð að leggja til peninga til þess, að fólk dæi ekki úr hungri hjer í vetur, þá er ekki að álasa stjórninni fyrir það, að nokkrir steinar komu í staðinn, — verk, sem gaf af sjer nokkrar þúsundir. Þetta er nú kallað Öskjuhlíðarfarganið af þeim manni, sem verið hefir drottins þjónn í heilan mannsaldur og þá náttúrlega ekki gleymt kærleikanum og náðinni. Þessi æfilanga iðkun guðrækninnar hefir þá leitt hann til þess að kalla það Öskjuhlíðarfarganið, þegar fátækum mönnum er bjargað undan hungri og heilsuhruni.

Hitt atriðið, sem jeg vildi minnast á, er sparnaðarhugvekja frá sjálfum mjer. Þetta frumv., sem lagt var fram í morgun, var fyrst reifað af hæstv. fjármálaráðh., svo talaði háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) við hóf, svo að engar umræður þurfti af því að leiða, en að því búnu kemur háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) með klukkutíma ræðu, þar sem hann ræðst á stjórnina; stjórnin þarf að svara og út af ræðunni spinnast langar umræður. Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefir því með þessu tafið þingið um heilan dag. Nú er talið, að þingið kosti landið 600 kr. á dag, svo telja má, að það láti nærri sanni, að klukkutíma þingræða, prentuð í þingtíðindunum, kosti 400 kr. Það er óhætt að gera ráð fyrir, að út af árásarræðu þm. (S. St.) spinnist að minsta kosti 10 ræður álíka; það gerir 4.000 kr. Alls hefir því háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) bakað landinu 5.000 kr. tjón fyrir að hafa velt úr sjer ókvæðisorðum um stjórnina.