09.07.1918
Neðri deild: 66. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

116. mál, síldarkaup, síldarforði og ásetningur búpenings

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg get í aðalatriðunum tekið í sama streng um till. þessa sem háttv. flm. (P. O.) og háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.).

Það er gleðilegt að heyra, að þótt ekki hafi verið farið langt með till, er samþykt var í fyrra, þá hefir hún samt orðið til þess að vekja menn, enda mun ekki hafa verið ætlast til meira með henni.

Í þessari till. liggur alt hið sama, og þó enn meira, eins og háttv. flm. (P. O.) hefir tekið fram, svo sem að ljetta megi undir með flutning á síldinni, og skilst mjer, að ekki sje eingöngu átt við síld, heldur og við hverskonar fóðurbæti. Enn fremur liggur það í till., að reynt verði að hafa áhrif á ferðir landssjóðsskipanna, þannig að þau geti tekið síldina þar, sem hún liggur aðallega, og dreift henni þangað, sem þörfin er mest, en það er í fjarlægustu hjeruðunum. Ef síldin liggur t. d. aðallega við Eyjafjörð og Siglufjörð, þá gætu menn úr nálægum sýslum náð í síldina án tilfinnanlegs kostnaðar, og yrði þá aðallega að hlaupa undir bagga með Suður- og Austurlandi. Og þótt þessum landshlutum yrði veitt einhver ívilnun í flutningsgjaldi, yrði það samt svo hátt, að síldin yrði þeim dýrari en Norðlendingum og jafnvel Vestfirðingum.

Þar sem háttv. flm. (P. O.) mintist á að senda menn upp um sveitir til þess að vita, hvort hross fengjust ekki keypt allgóðu verði, (P. O.: Það sagði jeg ekki ), þá skal jeg engu um það spá, hver árangur myndi verða af slíku. En verði menn sendir út á annað borð, mætti auka verkefni þeirra; þeir gætu jafnframt hvatt menn til þess að setja gætilega á og til þess að tryggja sjer nægan fóðurbæti í tíma.

Á því er mikill vandi, ef landsstjórnin á að ráðast í að kaupa síld þá, sem Bretar eiga hjer og hefir legið hjer alllengi. Jeg veit til þess, að nokkuð af henni hefir verið keypt, en allmikið er þó óselt. Og þótt menn viti, hvernig sú síld er, sem seld hefir verið, þá hafa menn enga vissu um gæði þeirrar síldar, sem enn er óseld, eða hvernig hún verður undir haustið, þegar fer að kólna í veðri.

Jeg verð að lýsa ánægju minni yfir því, að till. er komin fram, og vænti jeg, að hún verði athuguð fljótt og vandlega í háttv. bjargráðanefnd. Jeg vil leggja áherslu á það, að nefndin kynni ejer sem best, hvernig varið er um bresku síldina, hve mikið er óselt af henni, hve góð hún muni vera og hvaða verði hún muni fáanleg. Á því getur oltið mikið. Og verði síldarafli góður í sumar, verður líklega talsvert af nýrri síld á boðstólum, til sölu innanlands, og keppir sú síld þá við bresku síldina. Og eftir því, sem horfur eru á, verður sú síld ekki sjerstaklega dýr, og munu margir þá heldur vilja kaupa vissa og óskemda vöru en vafasama vöru frá fyrra ári. Væri gott, ef háttv. bjargráðanefnd vildi athuga þetta.

Jeg á ekki von á, að nokkur háttv. þingdm. muni vera því andvígur, að tilgangi til bjargráðanefndar að umr. lokinni.