09.07.1918
Neðri deild: 66. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

116. mál, síldarkaup, síldarforði og ásetningur búpenings

Matthías Ólafsson:

Mig furðar á því, að háttv. flm. (P. O.) skuli hafa þorað að koma fram með slíka till. þessari háttv. deild. Ekki af því, að jeg sje ekki samþykkur till., heldur vegna þess, hvernig hljóðið hefir verið í háttv. deild, þegar rætt hefir verið um forðagæslu. Menn hafa álitið bændur einfæra um að gæta þess, að ekki sje of mikið sett á. En þó þykir mjer gott; að till. kom fram, og mun jeg greiða henni atkvæði. Allir hafa sjeð afleiðingarnar af sjálfræði manna í þessu efni; þær hafa oft og tíðum verið sorglegar.

Það hefir verið minst á, hvort ekki væri ástæða til að kaupa upp þá síld, sem Bretar eiga hjer á landi. Jeg verð að ráða frá því, þar sem síldin mun vera orðin mjög ljeleg. Og hins vegar er það víst, að ekki muni skortur á nýrri síld næsta haust. Er því óhyggilegt að festa kaup á henni nú þegar; hún hefir legið mánuðum saman og er því meira og minna skemd og mun naumast verða svo ódýr, að ekki borgi sig betur að kaupa óskemda og nýja síld.

Mjer er ekki ljóst, við hvað er átt í 1. lið till. Jeg býst við, að tilgangurinn sje að tryggja, að ekki verði flutt svo mikil síld út úr landinu, að nægur fóðurbætir verði ekki eftir handa bændum. Er jeg því algerlega samþykkur, og eins hinu, að menn gæti þess, að ekki verði sett ofmikið á.

Hins vegar get jeg ekki fallist á síðasta málslið till. Jeg sje ekki ástæðu til að heimila, að landssjóður leggi fje til þessa; það ættu bændur sjálfir að gera. Og mjer þykir hjer skjóta nokkuð skökku við atkvgr., er nýlega fór fram um aðra till. hjer í þessari háttv. deild. Sú till. fór fram á að greiða fyrir mönnum með kolavinslu, og sje jeg ekki, að það sje neitt betra, að menn deyi úr kulda, heldur en að skepnur þeirra falli úr fóðurskorti. Jeg mun því koma með brtt. við 2. umr. á þá leið, að þessi liður falli í burt. Ef þingið vill ekki styðja menn á þessum tímum, heldur lætur þá bjarga sjer eins og þeir geta best, þá ætti það að vera samkvæmt sjálfu sjer og samþykkja ekki þessa heimild.