09.07.1918
Neðri deild: 66. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (1304)

116. mál, síldarkaup, síldarforði og ásetningur búpenings

Sigurður Stefánsson:

Jeg gleymdi að taka það fram áðan, er jeg gat um bresku síldina og samkepni hennar við nýja síld, að það er stórt atriði í málinu, að enn þá hefir engin síld verið veidd. Það gæti farið svo, að síldarveiðin yrði svo rýr, að ekki yrði veitt meira en þessar 50.000 tunnur, sem leyft er að flytja út. Um það er alls ekki hægt að segja fyrirfram, og er altaf rent blint í sjóinn með það. Og veiðist ljelega í sumar, þá er illa farið ef við höfum slept tækifærinu til að kaupa þessa bresku síld. Auðvitað er talsverð hætta á því, að hún sje skemd. En hana þyrfti ekki að kaupa blindandi. Það má ætla, að breska stjórnin ljeti það ekki standa fyrir sölunni, að síldin væri skoðuð áður en hún væri keypt. Gætu síldarmatsmenn annast þá skoðun, og mætti sigla að miklu leyti fyrir þau sker.

Jeg er sammála háttv. þm. V.-Ísf. (M. O.) um það, að hættulegt geti verið að kaupa síldina ósjeða, eins og hún er upp og niður. En síldarforðinn, sem Bretar eiga, er svo mikill, að þótt síldin væri ekki keypt öll eða þótt mikið gengi úr henni, þá gætu það verið töluverðar birgðir. Ef landsstjórnin vildi kaupa síldina, er sjálfsagt að fara fram á, að hún verði metin. Ef um óskemda síld er að ræða, er jeg viss um, að hún myndi öll keypt og borguð fyrir haustið, svo að landssjóður þyrfti ekki að eiga þar neitt á hættu.

Jeg skal geta þess í þessu sambandi, að jeg símaði nýlega í hrepp einn, þar sem 3.000 tunnur af síld þessari liggja. Bað jeg einn mann þar að segja mjer, hvort síldin myndi óskemd og hæfileg til skepnufóðurs. Jeg fjekk það svar, að nokkuð af henni væri skemt, en maður þessi kvaðst þó vilja kaupa 300 tunnur af henni fyrir hrepp sinn. Hefir þá þessi maður, sem er einkar skýr og glöggur, ekki álitið hana svo skemda, að frágangssök væri að kaupa hana. Að vísu nefndi hann verð, er jeg býst ekki við að umboðsmaður Breta vilji ganga að. Jeg hefi átt tal við umboðsmann Breta um síldarverðið, og kvað hann það mundu verða því ódýrara, sem meira væri keypt í einu. Og ef landssjóður keypti í stórum stíl, hygg jeg, að verðið myndi ekki verða hærra en það, að það borgaði sig fyrir menn úr fjarlægum hjeruðum að kaupa síldina, einkum ef ívilnun fengist í flutningsgjaldinu. Mjer væri þetta ekkert kappsmál, ef jeg væri viss um, að svo mikil síld veiddist í sumar, að nægur forði yrði til manneldis og skepnufóðurs, en um það er ekki hægt að fá neina vissu.

Mig furðaði á þeirri ályktun, er hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) dró af öðru máli, er felt var hjer í deildinn. Þótt menn hafi hrasað áður, er betra, að þeir sjái að sjer, heldur en að þeir haldi áfram í villu síns vegar. Nauðsynin er nú brýnni á því en nokkurn tíma áður, að hlaupið verði undir bagga með landbúnaðinum í þessum vandræðum.

Bjargráðanefnd mun ekki tefja málið, heldur gera alt til þess, að það fái sem greiðastan gang í gegnum háttv. deild.