12.07.1918
Neðri deild: 69. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

116. mál, síldarkaup, síldarforði og ásetningur búpenings

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Bjargráðanefndin hefir látið uppi álit sitt um þetta mál, á þgskj. 489, og er það samhuga álit hennar, að samþykkja beri till. þessa með breytingum þeim, á þgskj. 480 og 482, sem hún leggur til að gerðar verði. Það er nú svo um þetta mál, að það hefir að sumu leyti verið rætt í umr., sem orðið hafa um síldarfrv., sem nú er nýafgreitt frá þessari háttv. deild. Nefndinni hefir fullkomlega skilist það, að þessi till. væri orð í tíma talað, þar sem horfur með heyskap eru svo sem nú er; hins vegar þótti nefndinni nauðsynlegt að orða till. nokkuð fyllra en gert er á þgskj. 463, nefnilega í till. flutningsmanna, og að því lúta brtt. hennar á þgskj. 480. Það, sem er aðalatriðið í þessu fóðurtryggingarmáli, er einmitt sú leið, sem nú sýnist blasa við og vera sjálfsögð, að snúa sjer að síldinni, og í sambandi við þetta verð jeg að taka það fram, að þetta er því auðgerðara fyrir stjórnina, sem frv. síðasta var samþykt, þar sem hún þá kemur til að ráða yfir æðimiklum síldarbirgðum, þannig, að hún þarf ekki að beita neinum þeim ráðum, sem öðrum geti orðið til miska. Auðvitað er gert ráð fyrir því, að þessi forði verði til.

Nefndinni þótti því ljettara að bæta við með skýrum orðum 2. töluliðnum, sem sje því, að tryggja landinu síldarbirgðir til manneldis og skepnufóðurs, og það hafa áður verið færð rök fyrir því, bæði við umr. síldarmálsins og fyr, að það væri full þörf á að hefjast handa um það að tryggja landsmönnum fóðurbæti.

Jeg skal í sambandi við þetta minnast á það, sem tekið hefir verið fram um verðið á þessari síld, að selja hana ekki svo ódýrt, að nokkurt tjón þyrfti að verða að því fyrir síldarframleiðendur. Það er svo sem auðvitað, að það verður að selja hana þannig, að þeim, sem þurfa að kaupa hana til fóðurbætis, verði hún ekki alt of dýr, en það verð getur þó verið miklum mun hærra en það, sem gera má ráð fyrir að beinlínis þurfi að selja hana við, til þess að landssjóður verði skaðlaus af.

Jeg get ekki stilt mig um að nefna það, sem hjer hefir verið varpað fram, að landbúnaðurinn njóti einkis góðs af síldarútveginum.

Fari nú svo, að síld veiðist, þá tel jeg ekki líklegt, heldur einmitt vissu fyrir því, að landbúnaðurinn geti notið mikils góðs af síldarútveginum, og jeg vona, að landsmenn geti fengið góðan og tiltölulega ódýran fóðurbæti með þessu, og í sambandi við þetta vil jeg skjóta því fram, sem reyndar ekki snertir fóðurbæti minstu vitund, að jeg verð að líta svo á, að landbúnaðurinn njóti jafnan mikils góðs af síldarútveginum, með því að hann er einn af bestu tekjulindum landssjóðs, og að það er mun hægra, ef vel lætur í ári með þann útveg, að veita landbúnaðinum ríflegri styrk, heldur en ef síldarútvegurinn væri alveg úr sögunni, því að þá misti landssjóðurinn ærnar tekjur.

Í sambandi við þetta má benda á það, að um leið og landsstjórnin getur, ef síld veiðist í sumar, trygt sjer þennan fóðurbæti, þá er þessi útvegur eingöngu í höndum innlendra manna, og að þetta eru því hlunnindi, sem koma okkur sjálfum til góða. Jeg þykist því ekki þurfa að færa frekari rök fyrir þeirri nauðsyn, sem felst í 2. tölulið brtt. á þgskj. 480.

Um 1. töluliðinn var talað svo mikið við 1. umr. þessa máls, að engin ástæða er til þess að fjölyrða frekar um hann.

Vona jeg einnig, að stjórnin taki vel í það atriði, að það geti verið full ástæða til að greiða fyrir flutningi á þessum fóðurbæti milli hafna.

Og loks er það 3. töluliður. Nefndin hefir að vísu lagt til, að honum verði breytt dálítið, en það er engin efnisbreyting. Nefndin taldi rjett, að það væri brýnt fyrir sveitarstjórnum að nota haustið til þess að halda fundi með bændum, til þess að hvetja þá til tryggilegs ásetnings. Að öðru leyti vildi nefndin ekki fara nánar út í það atriði.

Hún telur í alla staði vel til fallið, að hreppsnefndir hafi venju fremur vakandi auga á, hvernig bændur setja á heyin. Auðvitað verða hreppsnefndir að njóta aðstoðar forðagæslumannanna. Og eftir reynslu minni á forðagæslulögunum tel jeg mikinn stuðning í þeim, sje þeim samviskusamlega framfylgt. Nefndin leit svo á, að það væri í alla staði gott, að stjórnin hvatti allar hreppsnefndir til þess að bindast samtökum um, að menn settu gætilega á hey sín, með því að mörgum mun ekki þykja ólíklegt, að næsti vetur gefi ekki síðasta vetri eftir. Slík tímabil hafa komið yfir þetta land, t. d. veturnir 1880 og 1882. Þá höfðu bændur freistast til að setja heldur mikið á, og sem kunnugt er kom aðalhorfellishrunið 1882. Og ef vjer athugum veðurfarssögu okkar, munum vjer sjá, að slíkir samfeldir harðindakaflar hafa komið öðru hvoru. Hjer er því sannarlega allur vari góður, og mjer finst, að þingið megi ekki láta neitt tækifæri ónotað til þess að brýna fyrir mönnum að fara gætilega. Því að þótt hörmulegt sje að eyðileggja bústofn sinn að haustinu, þá er það ekkert hjá því að fella hann úr hor og hungri um miðjan vetur eða að vorinu. Hollur er haustskaði í samanburði við hin ósköpin.

Í umr. um þetta mál á dögunum var minst á það, að stjórnin sendi menn út um land til þess að brýna fyrir mönnum varúð í þessum efnum. En nefndin leit svo á, að ósýnt væri um árangurinn af því, en kostnaðurinn gæti ærinn orðið. En nefndin vill þó ekki átelja stjórnina, þó að hún geri þetta í einstökum hjeruðum, t. d. sendi menn um helstu hrossahjeruðin, til þess að brýna fyrir mönnum að fækka hrossum í haust. Jeg þori að fullyrða það fyrir nefndarinnar hönd, að hún mundi ekki átelja slíkt, ef það gæti komið að verulegu gagni. En hitt hefir till.mönnum víst aldrei komið til hugar, enda mundi gagnið af því ekki svara til kostnaðarins.

Fyrir brtt. á þgskj. 482 er komin brtt. á þgskj. 492. Þar er farið fram á, að fyrirsögnin orðist nokkru fyllra en á þgskj. 482. Nefndin hefir sjálfsagt ekkert á móti brtt. þessari, og jeg held, að mjer sje óhætt að taka aftur brtt. á þgskj. 482, fyrir nefndarinnar hönd.

Þá er brtt. á þgskj. 472. Hún er að vísu stíluð við till. eins og hún var upphaflega orðuð, og meðan jeg heyri ekki annað frá flm. brtt. (M. Ó.), hefi jeg ekki ástæðu til að ætla, að hann vilji láta hana koma undir atkvæði, eins og nú er komið. Hins vegar er það ætlun hans að verja ekki fje til ferðalaga eða fundarhalda. Hygg jeg, að hann geti tekið till. sína aftur, eins og málinu er nú komið. Fjárveitinganefnd hefir látið álit sitt í ljós um fjárhagsatriði till. og samþykt, að stjórninni skuli heimilað fje til framkvæmdar þessu máli.