12.07.1918
Neðri deild: 69. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

116. mál, síldarkaup, síldarforði og ásetningur búpenings

Matthías Ólafsson:

Jeg sje, að hæstv. atvinnumálaráðherra er kominn aftur í deildina, svo að jeg get minst stuttlega á það, sem hann hafði að athuga við ræðu mína. Hann vildi halda því fram, að þetta mundi kosta mikið fje, og hann minti á annað mál, sem hefði kostað eitthvað, en gerði enga grein fyrir, af hverju sá kostnaður stafaði. En jeg hefi þegar bent á, að það væri varla hugsanlegt, að þetta kostaði annað fje en það, sem færi í símskeyti eða burðareyri. Jeg er algerlega mótfallinn því að senda menn út um sveitirnar til þess að predika fyrir bændum, því að það hlyti að hafa stórmikinn kostnað í för með sjer. Hins vegar þyrfti stjórnin sama og engu til að kosta, þótt hún keypti síld, því að það gæti hún gert með einföldum skipunum. Hæstv. atvinnumálaráðherra gat þess, að komið gæti til mála að selja síld út um landið. Það tel jeg ekki nema rjett. En hitt segi jeg, að það ætti að vera talað við þá stjórn, sem seldi síldina lægra verði út um landið en hægt væri að fá fyrir hana á markaðinum. En þá síld, sem ekki færi út, mætti auðvitað selja hjer þolanlegu verði. Jeg hefi áður tekið það fram um sendimennina, sem einnig hafa verið nefndir brýnararnir, að þeir mundu ekki áorka miklu. (S. S.: Það hefir enginn gert ráð fyrir að senda menn út). Hvað sem því viðvíkur, þá hefir þó þetta heyrst. Háttv. 1. þm. Arn. (S. S.) sagði, að jeg væri ekki spar á fje landssjóðs til sjávarútvegarins. Þetta er hárrjett, því að sá atvinnuvegur gefur landinu í aðra hönd miklar tekjur, en það er ekki hægt að segja um þann atvinnuveg, sem þessi hv. þm. (S. S.) þykist vera talsmaður fyrir hjer á þinginu. (Hlátur, skellihlátur). Jeg veit, að hann muni vitna í það fornkveðna, að bóndi sje bústólpi og bú landsstólpi. En það er kunnugt, að þessir stólpagripir, bændurnir, hafa altaf reynt að velta af sjer öllum álögum og gjöldum til landssjóðs. (G. Sv.: Talshátturinn er jafnrjettur fyrir því). Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) stakk upp á því, að landssjóður keypti dálítið af afsláttarhrossum í landinu. (S. S.: Þetta sagði jeg aldrei). Jeg held, að enginn hafi getað skilið orð hans öðruvísi. Það væri ósköp gott fyrir landssjóðinn að kaupa nokkur hross á 800 kr. stykkið og selja svo pundið af kjötinu á 8—10 aura, því að auðvitað yrði að selja það undir verði, ef bændur ættu að kaupa það til skepnufóðurs. En því vildi jeg svara slíkri till., að sá, sem ekki hefir ráð á að lána út fje gegn öruggri tryggingu, hann hefir ekki heldur ráð á að gefa það. Og þessi orð munu standa óhögguð og óhrakin. Jeg held, að hæstv. atvinnumálaráðherra þurfi ekki að vera bænheitur, þó að sú bæn hans verði heyrð, að þessi till. falli, því að hún er beinlínis borin fram til þess að verða feld. Hún er ekki borin fram til þess að spara þessar krónur, sem „sólundað“ yrði í þetta, því að þær drepa okkur aldrei, en þetta er brot á þeirri meginreglu, sem þingið hefir sett. Einhver ungur maður var að sletta sjer fram í þetta, en þegar sami maður leggur á móti nauðsynjamálum og þörfum fyrirtækjum, en styður gistihúsaeigendur í sínu eigin kjördæmi, þá skyldi maður ekki marka hans mótmæli mikið.