12.07.1918
Neðri deild: 69. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

116. mál, síldarkaup, síldarforði og ásetningur búpenings

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg vænti þess, að ekki verði hægt að segja um mig, að jeg tali af hlutdrægni um þetta mál, því að ekki verður það sagt, að mitt kjördæmi hafi hagnað af því, að till. verði samþ. eða þá ekki. (Atvinnumálaráðherra; Ef síldin yrði notuð til manneldis, gæti þó svo farið). En jeg tel þessa till. mjög þýðingarmikla og sjálfsagða, frá hvaða sjónarmiði sem á hana er litið og hvaða þm. sem hlut á að máli. Það hefir verið tekið fram, að útlit sje fyrir mikinn grasbrest á þessu sumri, og þessi eina ástæða er svo mikilsverð, að þó að hæstv. Alþingi hefði ekki nema hana eina til þess að styðjast við, þá hefði það ekki getað skilið svo vansalaust, að það hefði ekki gert eitthvað til þess að tryggja bændum fóðurbæti, svo að þeir gætu haldið búpeningi sínum. Þó að það verði sagt með nokkrum rjetti, að þessi atvinnuvegur gefi landssjóði ekki afarmiklar beinar tekjur, þá verður þó að gæta þess, hversu hann er ómissandi fyrir alla framþróun landsins og hversu margir landsbúar lifa á honum og hafa af honum uppeldi sitt. Og nú er ekki síður ástæða til þess að hlúa að þessum atvinnuvegi, þar sem nú getur svo farið, að þjóðin öll í heild sinni verði að bjargast við hann að miklu leyti, því að svo getur farið um sjávarútveginn, ef stríðið heldur áfram ef til vill í mörg ár enn, að hann komist í kalda kol. Og hvernig væri þá komið þjóðarbúskap vorum, ef bændur yrðu nú að farga bústofni sínum sakir fóðurskorts? Jeg mun því láta það með öllu óátalið, þó að landssjóður notaði talsvert mikið fje til þess að tryggja bústofn bænda. Þessu fje ætti að verja til þess að ívilna bændum í verði á fóðurbæti og flutningsgjöldum. En óþarft tel jeg það að eyða fje í þann hjegóma, að senda menn út um landið til þess að ráðleggja bændum um ásetning og annað því um líkt. En sjálfsagt er, að stjórnin hafi heimild til þess að verja fje úr landssjóði til fyrirgreiðslu í þessu máli, því að þetta er svo mikið og þarflegt mál, að alls ekki er farandi fram á að nema burt fjárheimildina, og ætti að gera alt til þess að greiða fyrir því.