06.05.1918
Neðri deild: 17. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

36. mál, stimpilgjald

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi því miður orðið að neita mjer um það, að vera við þá skemtun, sem hjer hefir verið í dag, vegna þess að jeg hefi haft öðrum störfum að gegna, sem jeg hefi talið nauðsynlegri. Jeg mun því ekki svara því, er fram hefir komið í ræðum manna, en mjer hefir verið sagt, að einhverjir háttv. þm. hafi talið ónauðsynlegt að kalla saman þingið nú. Jeg veit ekki, hvort þeir hafa viljað kalla saman þingið fyr eða síðar. Jeg man það, að strax í vetur heyrðust háværar raddir um það, að nauðsyn væri að kalla þingið saman hið bráðasta, en það var þá ekki hægt, vegna þess að tíðarfarið var slæmt, en svo var þessi tími valinn í samráði við marga hv. þm.

En nú, er þing er komið saman, kunna sumir því illa, en jeg hygg, að þeir geti ekki bent á nokkurn tíma, þar sem það getur ekki verið nauðsynlegt, að þingið eigi setu til þess að vera í ráðum með stjórninni, enda er það nú víðast svo, að þingin sitja mestan hluta ársins. En það er eins og sumir háttv. þm. vorra vilji ekki láta ónáða sig að heiman. En sá hugsunarháttur er rangur.

Jeg hygg, að það væri sjálfsagt, að þingið kæmi svo snemma saman, að það gæti gert ráðstafanir fyrir sumarið, því að sumar ráðstafanirnar gátu orðið of seint fram bornar, ef komið var fram á sumar. Jeg hefi heyrt suma háttv. þm. gera mikið úr því, hversu fá frv. liggja fyrir þinginu, en jeg tel það ekki rjettan mælikvarða, heldur þann, hversu mikið gagn er að þinginu, og jeg er ekki enn úrkula vonar um það, að það geti gert ráðstafanir, sem að haldi geti komið.

Og þeir, sem eru óánægir með stjórnina, mega vera henni þakklátir fyrir að kveðja þingið svona snemma saman; ella hefðu þeir ekki getað sett rannsóknarnefndir, til þess að rannsaka gerðir stjórnarinnar. Það gat orðið of seint, og verkefni þeirra sumra er svo mikið, t. d. rannsóknarnefndarinnar, sem á að rannsaka landsverslunina, að það tekur marga mánuði. Þingið hefir líka nóg að vinna, ef það að eins vill vinna að því, sem nauðsynlegt er. Þessi ummæli háttv. þm. eru því alveg út í hött og hljóta að vera sögð út í bláinn, án þess að nokkur skoðun eða festa fylgi. Það er alveg hið sama og í fyrra, er háttv. Nd. var að óska þess, að borið yrði fram af landsstjórninni frumv. til laga um að bæta kjör kennaranna, en svo er stjórnin kemur strax á næsta þingi með frumv., þá liggur við, að háttv. Nd. verði vond yfir því, og flestir þeir, er bæta vildu kjör kennaranna, standa upp og berja sjer á brjóst og segja: Þetta var ekki meiningin! Jeg gat búist við, að menn hefðu fundið að því, að þingið væri kallað of seint saman, en ekki hinu, að það væri gert of snemma. Veðráttan tafði fyrir því, að það væri kallað saman. En jeg tek ekki við neinum ákúrum fyrir það, að hafa kallað þingið of snemma saman. Það getur vel verið, að þetta þing þurfi að sitja nokkuð lengur á ráðstefnu en annars er venja um aukaþing; en um það get jeg engu lofað að kalla ekki saman þingið á hverju augnabliki, sem nauðsyn krefur eða stjórnin telur þess þörf.