06.05.1918
Neðri deild: 17. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

36. mál, stimpilgjald

Magnús Pjetursson:

Það var örstutt athugasemd út af nokkrum orðum hæstv. fjármálaráðherra, sem sprottin hafa verið af misheyrn eða misskilningi. Fyrst var þá það, að jeg mintist ekki neitt á víxla, heldur var það hv. þm. G. K. (B. K.).

Hitt var og sprottið af mjög miklum misskilningi, er hann fór að bera af hv. þm. Dala. (B. J.). Jeg mintist að eins á ræðuhöld hans á þingi, ekkert annað.

En sjerstaklega vildi jeg þó mótmæla því, er hæstv. fjármálaráðh. undraðist svo mjög, hvað jeg væri harður í garð stjórnarinnar, þar sem jeg var svo nákominn einum þeirra, og skildist mjer, að þar ætti hann við „pólitískan“ skyldleika. Mun hann þar hafa sveigt að sambandi mínu við Heimastjórnarflokkinn. En það samband er að eins kosningasamband, og veit jeg, að hæstv. forsætisráðh. mun bera mjer þess vitni. Vil jeg taka það skýrt fram, að milli mín og Heimastjórnarflokksins, eða þess flokks ráðherra, er ekkert „pólitískt“ samband. Mjer þótti vænt um að heyra, hve hæstv. fjármálaráðh. vill fylgjast vel með „Tímanum“, er hann segir, að jeg hafi að eins komist í þessar nefndir fyrir samband mitt við Heimastjórnarflokkinn. En ef hann vildi nú gera þá nýbreytni, að taka sjer penna og pappír í hönd og reikna út flokkahlutföll hjer í deildinni, mundi hann komast að því, að jeg gat vel komist í þessar nefndir, þótt jeg væri ekki í kosningasambandi við Heimastjórnarflokkinn.