17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

50. mál, kolanám í Gunnarsstaðagróf

Magnús Pjetursson:

Jeg vildi að eins gera stutta athugasemd út af ræðu háttv. þm. S.-Þ. (P. J.). Mjer þótti vænt um að heyra, að bjargráðanefnd skuli ekki hafa tekið fasta afstöðu til málsins, því að jeg vona, að þegar hún gerir það, verði ákvörðunin málinu í vil. Þeim kemur ekki rjett vel saman, hæstv. atvinnumálaráðherra og háttv. bjargráðanefnd. (P. J.: Jeg talaði að eins út frá mínu sjónarmiði). Það er skiljanlegt, því að enginn mun gera ráð fyrir, að þetta hafi borið á góma í bjargráðanefndinni.

En þar sem talað var um það, að þetta gæti orðið fordæmi, ef lagður yrði vegur á landssjóðskostnað frá námunni og til sjávar, þá er nokkuð öðru máli að gegna hjer, þar sem náman er landssjóðseign, en annars mun það óvenjulegt, að landssjóður eigi þær námur, sem reknar eru. En þar, sem landssjóður á námur, er ekki nema sjálfsagt, að hann leggi veg frá þeim og til sjávar, og það jafnvel þótt það væri akbraut, því að það á ekki að horfa í það að búa í haginn fyrir sjálfan sig. Það er alveg rjett hjá hæstv. atvinnumálaráðherra, að það er Strandasýsla, sem ætlar að reka námuna, en mjer fanst skrítið, að hann skyldi taka svo til orða „að hann hefði heyrt það“, að sýslufjelagið ætlaði að reka námuna, þar sem þó hefir verið lagður útdráttur úr sýslufundargerð sýslunnar fyrir háttv. stjórn, svo að hann hlýtur að hafa sjeð það.

Það er ekki meiningin, að Strandamenn sjeu að sækja hjer um sjerstök hlunnindi, eins og mjer skildist á háttv. þm. S.-Þ. (P. J), heldur eru þeir að reyna að bæta úr ráðleysi og framkvæmdaleysi stjórnarinnar í þessu efni, með því að taka framkvæmdirnar í sínar hendur, og það er ekki fyrir Strandasýslu eina, að þeir óska eftir þessu, heldur fyrir allar sveitir, sem liggja upp frá Húnaflóa, því að þær mundu allar hafa stórmikið gagn af námurekstri á þessum stað.

Annars vil jeg skjóta því til bjargráðanefndar og háttv. deildar að afgreiða málið eins fljótt og unt er, því að svo framarlega sem nokkuð á að gera í vor, verður sýslufjelagið að fá að vita um úrslit málsins sem allra fyrst.