23.05.1918
Neðri deild: 29. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

50. mál, kolanám í Gunnarsstaðagróf

Magnús Pjetursson:

Jeg get þakkað háttv. bjargráðanefnd fyrir undirtektir hennar í þessu máli, þó að þær sjeu ekki fyllilega í samræmi við brtt. mína. Jeg get náttúrlega ekkert um það sagt, hvort þetta er nóg til þess að geta komið að þeim notum, sem til er ætlast með brtt. minni, því að jeg verð að segja, að það er dálítið athugavert, borið saman við brtt. frá mjer. Fyrst og fremst er nú það, að í ályktun sýslunefndarinnar í Strandasýslu er það beinlínis gert að skilyrði fyrir því, að sýslan taki að sjer kolanámið, að landssjóður styrki það, eins og stendur í brtt. minni, en ekki í till. háttv. bjargráðanefndar. Þess vegna veit jeg ekki, hvort hægt verður að framkvæma þessar fyrirætlanir án þess að kalla saman sýslunefnd til að ákveða það, en það er mikill kostnaðarauki í svo víðlendri sýslu, enda get jeg ekki heldur skilið, að það beri svo mikið á milli þessarar till. og minnar, að ekki hefði eins vel mátt samþ. hana. Jeg skal ekkert segja um það upp á víst, að ekki verði unnið þarna, þótt brtt. háttv. bjargráðanefndar verði samþ.; þar er hvorttveggja til, en hitt er víst, að unnið verður, ef mín till. er samþ., enda var till. mín algerlega miðuð við þingsályktunartill. frá síðasta þingi, svo að mjer finst þetta töluverður afturkippur frá því, sem þingið þá ætlaðist til.