23.05.1918
Neðri deild: 29. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

50. mál, kolanám í Gunnarsstaðagróf

Frsm. (Pjetur Jónsson):

Það, sem nefndinni þótti að till. háttv. þm. Stranda. (M. P.), var ekki það, að hún byggist við, að þetta yrði svo dýrt, enda ætlaði hún að tiltaka það í upphafi, sem nægja myndi til þess að fullnægja till. háttv. þm. Stranda. (M. P.), heldur þótti henni það nokkuð óákveðið að láta gera akfæran veg á landssjóðskostnað frá námunni. Eftir ágiskun Guðmundar Bárðarsonar mundi það kosta 1.000 krónur, en það gæti líka orðið miklu dýrara; þetta fer eftir því, hve mikið er vandað til vegarins; þetta var því of óákveðið. Ef nú farið væri að styrkja námugröft annarsstaðar á landinu, gæti vel verið, að óskað yrði eftir vegarlagningu, og fordæmið notað, en sá vegur yrði miklu dýrari. Það varð því að koma undir álit þingsins, hve mikið landið skyldi leggja til, en að þingið færi ekki að taka að sjer að gera vegabætur frá námum til sjávar, hvað sem það kostaði. Í öðru lagi vissum við ekki, hvað verða kynni fólgið í því að borga fyrning á verkfærum, og álítum því eins hyggilegt að hjálpa sýslunni til þess að kaupa verkfæri. Þessi ágiskun Guðmundar Bárðarsonar um vegarlagninguna er að vísu lausleg, en hún var það, sem ákvarðaði okkur, og ætlumst við til, að fjeð hrökkvi til vegarlagningarinnar og nokkurra verkfærakaupa, þetta sem nefndin tiltekur.

Jeg hefi svo ekki meira að segja um þetta mál; skal að eins láta þess getið, að það er nefndinni ekkert kappsmál, hvort till. hennar eða háttv. þm. Stranda. (M. P.) verður samþ.