16.05.1918
Neðri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

36. mál, stimpilgjald

Frsm. Magnús Gnðmundsson:

Eins og nál. ber með sjer, er það ekki með glöðu geði, að fjárhagsnefndin leggur það til, að þetta frv. verði gert að lögum, því að gjald það, er frumv. þetta leggur á, er nú helmingi hærra en það var í fyrra, og var þá samþykt með hangandi hendi á síðasta þingi, svo að nærri má geta, að það er ekki síður nú, þegar auk þess hefir verið bætt við gjaldi af farmskírteinum, sem ekki er annað en útflutningsgjald.

En þess ber að gæta, að nefndin leggur til, að frumv. þetta verði samþykt, vegna þess hvernig fjárhagurinn er og af því að hún veit, að nú er fylsta þörf á þessum tekjuauka. En hún hefir enn fremur lagt til, að þessi lög gildi ekki lengur en til ársloka 1921, ekki fyrir það, að nefndin sje mótfallin stimpilgjaldinu í sjálfu sjer, heldur af því, að nefndinni þykir þetta gjald alt of hátt, eins og það nú er, og enn fremur af því, að það þykir óviðkunnanlegt að hafa ákvæði um stimpilgjald af farmskírteinum inni í svona lögum. Vegna þess stingur nefndin upp á því, að lög þessi gildi ekki lengur en til ársloka 1921, svo að trygt sje, að þau verði endurskoðuð mjög bráðlega, og ætlast nefndin þá til þess, ef breyting verður þá komin á í heiminum, að stimpilgjald af farmskírteinum falli burt, því að nefndin er mótfallin útflutningsgjaldi.

Þær brtt., sem nefndin stingur upp á, eru alls ekki stórvægilegar; þær lúta flestar að þessum nýja lið, farmskírteinunum, og miða til þess, að gera ákvæðin um þau skýrari, því að þau raska þeim grundvelli laganna, sem þau voru bygð á í byrjun, þó að reynt hafi verið að setja ákvæðin þannig inn, að þetta kæmi ekki að sök. Nefndin vill styðja að því, að farmskírteinum verði ekki skotið undan stimplun, með því að skylda afgreiðslumenn skipa til þess, að viðlögðum sektum, að afhenda lögreglustjórum öll farmskírteini til stimplunar. Hugsunin er sú, að afgreiðslumenn skipa eigi að ábyrgjast, að öll farmskírteini fari til lögreglustjóra, og svo er meiningin, að hann ákveði verð vörunnar eftir hinum gefnu reglum.

Jeg hefi heyrt raddir um það, að ekki væri nægilega skýrt ákveðið, hvernig setja skyldi verð á vörur þær, er farmskírteini ræðir um, en tilætlunin er, að verðið verði sett á vöruna á sama hátt og gert var ráð fyrir í verðhækkunartollslögunum frá 1915. Nefndin mun athuga til 3. umr., hvort þetta sje eigi nægilega skýrt, og mun koma með brtt. um þetta, ef þörf þykir. Það skal tekið fram, að slept er hjer því ákvæði verðhækkunartollslaganna, að verð vörunnar skuli sett eigi lægra en gangverð, og er ástæðan til þessa sú, að þar sem ekki er um endurgreiðslu stimpilgjalds að ræða, þótti ekki rjett að gefa undir fótinn um það, að setja verðið hátt, enda óþarft að mestu nú, þar sem bresku samningarnir setja fast verð á flestar vörur.

Nefndin hefir felt í burt stimpilgjald af borgarabrjefum handiðnarmanna, en sett í staðinn, að skipstjóraskírteini skuli stimpla með 10 kr. og stýrimannaskírteini með 5 krónum. Enn fremur er hækkað gjald af flestum leyfisbrjefum upp í 5 krónur.

Jeg tók það fram, að aðalástæðan fyrir því, að nefndin hefði fallist á þetta frv., væri sú, hversu fjárhagur landsins er þröngur.

Jeg vil nú, til þess að finna þessum orðum mínum stað, leyfa mjer að fara nokkrum orðum um skýrslu fjárhagsnefndar um fjárhagsástand landsins. Vænti jeg, að hæstv. forseti taki það ekki illa upp, þar sem skýrsla þessi verður eigi tekin á dagskrá sjerstaklega og því eigi hægt að minnast á hana hjer í háttv. deild, nema í sambandi við eitthvert annað mál. Skýrslan sýnir, eins og áður er um getið af hæstv. fjármálaráðh., að tekjuhalli ársins 1917 muni nema nærri 2 miljónum. En upp í þennan tekjuhalla er til frá árinu 1916 tekjuafgangur, sem nemur kr. 143.021,43 og sömuleiðis er þá innieign hjá landsverslun, er nemur kr. 590.080,63.

Ef nú þessar 2 fjárhæðir eru dregnar frá tekjuhalla ársins 1917, verður tekjuhalli fjárhagstímabilsins 1916—1917 nákvæmlega talinn kr. 1.207.007,56. Þó getur þessi upphæð breyst eitthvað, vegna þess, að eigi eru enn fram komin öll útgjöld, er tilheyra árinu 1917, en miklu getur þetta ekki munað. Um innieign hjá landsversluninni er þó rjett að geta þess, að hún er alls ekki öll frá árinu 1916, heldur hefir hún safnast fyrir árin 1914, 1915 og 1916; en þar sem hjer er um eign að ræða, sem aldrei hefir komist inn í viðlagasjóð, er rjett að draga hana frá hjer, þar sem reikningur landsverslunarinnar bendir ótvírætt til þess, að hún geti borgað þessa skuld.

Ef spá á, hvernig fara muni 1918, þá mun það ekki svo auðvelt, en þó held jeg, að flest bendi á það, að tekjumar verði yfirleitt svipaðar og gert var ráð fyrir í fjárlögunum, en sumir tekjuliðirnir verða eflaust nokkuð hærri, en aftur á móti sumir lægri en áætlað er. Eflaust fer tekjuskatturinn töluvert fram úr því, sem áætlað er, en útflutningsgjöldin munu aftur á móti verða mikið lægri. Ekki er gott að segja um kaffi- og sykurtollinn, en líklega mun hann ekki verða lægri en áður, og yfirleitt finst mjer rjett að gera ráð fyrir því, að tekjurnar verði svipaðar og þær voru áætlaðar í síðustu fjárlögum.

Hvað snertir gjaldahliðina, þá verður auðvitað ekki sagt um það með fullri vissu, hvort hún fer fram úr áætlun eða ekki, en reynslan hefir sýnt, að svo fer venjulega. En naumast er þó ástæða til að ætla, að munurinn verði eins mikill og hann varð 1917, því að ýms lögboðin útgjöld eru tekin upp í gildandi fjárlög, sem eigi hafa verið tekin upp í þau áður, svo sem tillag til Landsbankans, til landhelgissjóðs, til fasteignamats, til ellistyrktarsjóða, til bjargráðasjóðs o. fl Samtals munu þessar upphæðir nema um 300 þús. kr. Yfirleitt má segja, að það hefir jafnan verið galli á fjárlögum vorum, að í þau hafa ekki verið tekin nærri öll lögboðin gjöld. Hefir þetta orðið til þess, að gjöldin hafa jafnan farið mjög fram úr áætlun og gjaldabálkurinn ekki gefið sanna hugmynd um gjöldin. Þetta er að svíkja sjálfan sig, en að verulegri sök hefir þetta ekki komið, vegna þess að tekjurnar hafa jafnan verið áætlaðar varlega og farið fram úr áætlun að sama skapi og gjöldin.

Enn fremur má geta þess, að önnur atriði benda einnig til þess, að gjöldin 1918 verði ekki eins mikil og 1917, og á jeg þar sjerstaklega við það, að á árinu 1917 var greidd tvöföld dýrtíðaruppbót, tvöfaldur þingfararkostnaður, undir 100 þús. kr. til Tjörnesnámu, yfir 80 þús. til aðgerðar á stjórnarráðshúsinu, og síðast en ekki síst má telja það, að til að setja niður verð á kolum var varið um 490 þús. kr. Annars skal jeg í þessu sambandi taka það fram, að mjer kemur það undarlega fyrir, að kol þessi eru reiknuð landssjóði á 300 kr. smál., þótt vitanlegt sje, að þau kostuðu eigi nema 200 kr. hjer í Reykjavík við skipshlið. Að sjálfsögðu hefir lagst kostnaður á við uppskipun, geymslu, rýrnun o. fl., en eigi getur þetta valdið nándar nærri 100 kr. hækkun á smál. Játað skal það, að í raun og veru skiftir þetta ekki máli, því að verðmismunurinn hefir farið til landsverslunarinnar, og hún er eign landssjóðs, en rjetta aðferð get jeg þó ekki talið þetta, og allmikið af gróða landsverslunarinnar virðist stafa af þessu.

Fari nú svo, að þau tekjuaukafrv., sem nú liggja fyrir, verði samþykt, má eftir þessu telja líklegt, að tekjuhallinn á árinu 1918 verði ekki yfir 1 miljón. Vera má, að hann verði meiri, og býst jeg fremur við því heldur en að hann verði langt undir þessari áætlun.

Ef spá á um afkomu landsins 1919, getur sú spá ekki orðið glæsilegri en svo, að hún verði svipuð afkomunni 1918, ef þetta ástand heldur áfram, sem nú er. En ef stríðið skyldi hætta, þá fær landssjóður þegar í stað miklar tekjur. En ástandið getur líka versnað, og þá verður landssjóður miklu ver staddur en líkur eru til nú. Verði svipað ástand næsta ár og nú, þá má búast við, að tekjuhallinn í lok þessa fjárhagstímabils verði 3 —31/2 miljón kr. Það er því auðsætt, að afla verður einhverra tekna, ef unt væri að minka þennan tekjuhalla. Það er ekki skemtilegt að hugsa til þess, að á árinu 1917 hefir eyðst meira en það, sem vjer höfum sparað samtals fyrir landssjóðinn síðan vjer fengum fjárforræði. Eins og hæstv. fjármálaráðherra hefir skýrt frá, voru skuldir landssjóðs 8. apríl 1918 19 milj. kr., og svipaðar voru þær um áramótin 1917—18. Nefndin tók sjer fyrir hendur að athuga, hvað orðið hefði af allri þessari upphæð, og það er tekið fram í skýrslu fjárhagsnefndar, hvar þessi mikla fjárhæð er, og sjest af henni, að það er rjett, sem hæstv. fjármálaráðherra skýrði frá í þingbyrjun, að því nær ekkert af þessari fjárhæð er eytt, en verði ekki að gert, er auðsætt, að töluvert af þessu verður að taka til að greiða með tekjuhallann á árunum 1917 og 1918. Það er því hin mesta nauðsyn á, að reyna að draga úr gjöldunum svo sem auðið er og auka tekjurnar eitthvað. Þess er að vænta, að þm. athugi þetta og sýni nú meiri sparnað en áður.