22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Eins og skýrt er frá í greinargerðinni, er till. þessi ávöxtur af áhuga sjómannastjettarinnar fyrir því að tryggja öryggi vjelbátaflotans hjer við land. En það er öllum vitanlegt, að hingað til hefir það öryggi verið lítið.

Eins og kunnugt er, geta vjelarnar í bátum þessum bilað þegar minst varir, og er hætt við, að svo fari þegar síst gegnir.

Með áhyggju horfa venjulega þeir, sem í landi eru, á báta þessa leggja út á djúpið, því að svo getur farið, að einhver þeirra komi ekki aftur. Enda hefir reynslan oft verið sú, að vantað hefir af þeim að kvöldi. Stundum hafa menn lifað í voninni, þótt svo hafi farið, og það hefir líka komið fyrir, að þeim hefir tekist að lenda annarsstaðar, eða bjargast eftir langt volk. En hins eru líka sorglega mörg dæmin, að þeir hafa aldrei komið aftur.

Jeg þarf ekki að vera að útmála það, hversu alvarlegt þetta ástand er og hversu ömurlegt það er, ef slíkt á að viðgangast til lengdar.

Auðvitað hjálpa bátar þessir hverjir öðrum, þegar því verður við komið, en oftast mun hver eiga nóg með sjálfan sig. Það hefir líka komið fyrir, að farist hefir einmitt sá, sem ætlaði hjálpa öðrum.

Jeg tel því ekki vafasamt, að allir þeir, sem heyra mega mál mitt, sjeu á einu máli um það, að úr þessu verði að bæta eftir föngum. Og engan þarf að furða, þótt sjómannastjettin leiti ráða til þess, og er það nú í ráði að vinna að því, að björgunarbátum verði komið upp í þessu skyni.

Vjelbátaflotinn er nú orðinn svo stór, að nóg verkefni mun vera fyrir slíka báta, því að venjulega ber eitthvað út af á hverri vertíð.

Fiskifjelagið hefir tekið sjer fyrir hendur að hrinda málinu af stað, og hefir ráðunautur fjelagsins ferðast um, til þess að undirbúa það, og hefir hann alstaðar fengið góðar undirtektir.

Áhuginn fyrir þessu máli er óðum að aukast, og það svo, að í einni stórri stórri fiskiflotastöð hafa menn beðið þingmann sinn að fylgja fram málinu hjer á Alþingi. Sjávarútvegsnefnd fanst það ekki mega henda, að þingið mætti ekki þessum áhuga á miðri leið. Og þannig er þessi tillaga til orðin. Einkum hefir háttv. þm. Vestm. (K. E.) af eðlilegum ástæðum hugsað nánar um málið en við hinir í nefndinni og er því kunnugri; vil jeg því biðja forseta um orðið handa honum næst.

Það eru einkum þrjár aðalflotastöðvar, sem við höfum haft í huga, þar sem þörfin á björgunarbát væri einna brýnust, Vestmannaeyjar, strandlengjan kringum Reykjanes og Ísafjarðardjúp. Tilætlun okkar er, að hjeruðin sjálf ráðist í fyrirtækin, en landssjóður styrki alt að 1/3 kostnaðar.

Við höfum leitað upplýsinga um, hvað einn björgunarbátur mundi kosta, og í áætlun okkar höfum við farið eftir upplýsingum frá kunnum mönnum. Ef til vill hentar nokkuð misjafnt sitt á hverjum stað, en sá munur getur þó aldrei orðið mjög mikill. Jeg veit, að það þarf að taka vorkunnsamlega á fjárhag landsins, og jeg lái það ekki, þótt 40.000 kr. kunni að vaxa mönnum í augum, en þær vega þó ekki á móti því að missa þótt ekki væri nema einn mótorbát með allri áhöfn í sjóinn. Og jeg hygg, að ef við ættum þennan fund á skipsfjöl og ættum kost á að bjarga lífi manns, sem væri að drukna, með því að samþykkja þessa till., þá myndum vjer allir óðara samþykkja hana. Það er fjarri því, að þetta mál nái ekki nema til sjómannastjettarinnar. Það er miklu víðtækara, og það er styrkur mikill fyrir heill alls landsins og allrar þjóðarinnar, að það nái fram að ganga.

Vil jeg svo í nafni nefndarinnar biðja háttv. deild að samþykkja till., og væri ef til vill rjett að vísa málinu til háttv.. fjárhagsnefndar, því að jeg býst við, að háttv. deild vilji fá að vita álit hennar um tillöguna áður en hún samþykkir hana.