22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Karl Einarsson:

Það var nú í rauninni hálfgerður bjarnargreiði af hv. þm. (K. D.), sem síðast talaði, að biðja um orðið handa mjer, eftir að hafa sjálfur svo að segja tekið alt fram, sem um málið er þörf að taka fram.

Það er að eins eitt atriði í þessu sambandi, sem jeg ætla að minnast á, en það er útgerðarsaga Vestmannaeyja í vetur og hvert gagn björgunarbátur hefði getað gert þar.

Í haust var mótorbátur á leið frá Stokkseyri til Vestmannaeyja, með 11 farþega innanborðs, í alt 13 eða 14 manns. Þegar eftir var að eins stundarfjórðungs sigling til Eyja, bilaði vjelin og bátinn rak vestur í haf.

Það sást til hans úr landi, og voru mótorbátar fengnir til þess að leita að honum, en bátarnir fundu hann ekki, enda var veður hið versta og dimt orðið af nóttu. Seinna kom það fram, að báturinn hafði siglt vestur fyrir Reykjanes, því að þar fanst hann af botnvörpung, sem hæstv. fjármálaráðherra útvegaði að tilmælum mínum og sendi til þess að leita að honum. Mun það hafa kostað talsvert fje.

Hefði nú björgunarbátur verið til í Vestmannaeyjum, hefði hann þegar lagt af stað og báturinn bjargast um kvöldið. En það var álit manna, að báturinn hefði farist með öllum, er á voru, og var hann alment talinn af upp í 2 sólarhringa. Sem betur fór var það ekki, en miklum hrakningum hafði fólkið orðið fyrir, og sannarlega ekki neinni forsjálni að þakka, að hann týndist ekki með öllu.

Eftir að vertíðin byrjaði í vetur, biluðu mótorbátarnir, eins og venja er, oft daglega. Oft vill þá svo til, þegar bátar bila þannig úti á hafi, að hann er að ganga upp með veður og myrkrið í nánd. Er þá eina leiðin að fá aðra báta til þess að fara og leita. Ætíð hafa sjómenn fengist til þess að fara og hafa oft farið í tvísýnu út á haf að leita, en svo fór eitt sinn í fyrra, að einn leitarbátanna fórst með allri áhöfn, og sá sem leitað var að líka, en mönnum bjargað. Í mannskaðaveðrinu 4. mars í vetur mistum við 2 báta með öllum mönnum, og var það sorglegt til að vita að geta ekki hjálpað þá, því að auk þeirra, sem týndust, lágu 3 aðrir úti í því voðaveðri.

Það kemur líka stundum fyrir, að skip eru í nauðum stödd á þessum slóðum, og það seinast í vetur. Þá símaði sýslumaðurinn í Skaftafellssýslu eitt sinn til mín og sagði, að skip væri í nauðum fram undan Mýrdalnum. Jeg þorði ekki að treysta því, að mótorbátar færu til hjálpar, enda gerði óveður; en svo heppilega vildi til, að botnvörpungur lá á höfninni, og fjekk jeg hann til þess að fara. Hann bjargaði skipshöfninni og skipinu og kom með hvorttveggja til Eyja. Skipshöfnin bar það fyrir rjetti, að hún hefði áreiðanlega farist öll ef hjálpin hefði ekki komið svo bráðlega eins og varð. Jeg efast um, að mótorbátar hefðu getað bjargað, því að hann hvesti á sunnan um sama leyti og botnvörpungurinn kom með skipið til Eyja og gerði bráðófært veður af suðri.

Það, að jeg leyfi mjer að bera fram þessa till. nú, ásamt meðnefndarmönnum mínum, kemur sjerstaklega til af því, að á þingmálafundi í kjördæmi mínu í vetur var skorað á mig að fá Alþingi til þess að styrkja fyrirtækið. Ýmsir góðir menn munu leggja í fyrirtækið, ef þeir vita, að von sje einhvers styrks úr landssjóði, og er þar vaknaður almennur áhugi á því að hefjast handa í þessu máli. Svo hafa menn hugsað sjer, að rekstrarfje fengist ekki eingöngu frá útgerðarmönnum, heldur einnig frá ábyrgðarfjelögunum, því að fyrirtækið væri ekki síður þeim í hag en útgerðarmönnunum sjálfum. Á sumrin gæti björgunarbáturinn gengið til fiskveiða eða síldveiða og lagt þannig nokkuð fram upp í kostnaðinn; jafnvel um vertíðina mætti ef til vill einhvers afla upp í kostnaðinn. En á veturna yrði hann helst að fylgjast með fiskibátunum.

Nefndin hefir leitað álits framkvæmdarstjóra Fiskifjelags Íslands um, hvað bátur við hæfi Vestmannaeyja, 60 tonna stór, með 100 hesta „diesel“-vjel eða gufuvjel, mundi kosta, og er miðað við þær upplýsingar í till.

Vona jeg svo, að háttv. deild taki vel í þetta mál, og skal svo ekki fara fleiri orðum um þörfina á því, að það komist í framkvæmd.