23.05.1918
Efri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (1383)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg var ekki viðstaddur í gær, er þetta mál var til 1. umr., en mjer virðist ekki, að neitt sje við það að athuga í sjálfu sjer; málið er bæði þarft og tímabært. Það er að eins formið á þingsályktunartill., sem jeg tel ógreinilegt. Það er fyrst og fremst ekki tekið fram, hvar þessi eini bátur á að ganga, og ekki talað um, hvort leggja skuli fram fje til fleiri báta en eins. En nú geta komið fram beiðnir um styrk úr ýmsum áttum. T. d. er ekki ósennilegt, að Austfirðir mundu æskja slíks báts, því að þar mun vera full þörf fyrir hann; líkt er um Vestfirði. Beiðnir gætu komið að minsta kosti frá fimm stöðum á landinu. Mjer finst, að það þurfi að tiltaka þetta nánar í till.