23.05.1918
Efri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (1384)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Af því að hæstv. atvinnumálaráðherra var ekki viðstaddur umr. um þetta mál í gær, þá er skiljanlegt, að hann biðji upplýsinga viðvíkjandi áminstum atriðum. Jeg tók fram þá, að hugsunin er, að bátum verði komið upp á fleiri stöðum, og aðalstöðvarnar, sem fyrst væri um að ræða, yrðu sennilega þrjár, Vestmannaeyjar, Reykjanes og Ísafjarðardjúp, en auðvitað ætlast jeg til, að það fari nokkuð eftir framtakssemi hlutaðeigandi hjeraðsbúa sjálfra, hvar styrkurinn verður fyrst veittur. Jeg endurtek þetta vegna hæstv. atvinnumálaráðherra, sem ekki var hjer viðstaddur í gær.