29.05.1918
Neðri deild: 34. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Sjávarútvegsnefndin hefir ekki að öllu leyti getað fallist á að láta till. þessa ganga fram án viðauka eða breytingar. Þar sem ætlast er til svo mikils fjárframlags úr landssjóði, þá finst nefndinni, að ekki megi minna vera en að stjórnin hafi einhverja tilhlutun um starf bátsins og svæði það, sem honum er ætlað að starfa á þann tíma ársins, sem mest þarf á honum að halda. í nál. á þgskj. 234 er skýrt tekið fram það, sem fyrir nefndinni vakti. Nefndin lítur svo á, að þessi fjárbeiðni geti komið af stað fleiri fjárbeiðnum af sama tægi, þótt eigi verði á þessu þingi, þá samt á næstu þingum. Hins vegar er nefndinni það ljóst, að ítrustu tilraunir þarf að gera til tryggingar vaxandi mótorbátaútvegi víðs vegar kringum landið. Af þeirri ástæðu vill hún ekki ganga gegn till, þótt efni landssjóðs sjeu lítil til þessara fjárveitinga, heldur leggja til, að hún verði samþykt með nokkurri breytingu. Breytingarnar eru á þgskj. 234 og lúta, eins og áður er sagt, að íhlutun landsstjórnarinnar um útbúnað og starfsháttu bátsins. Það mun vera til þess hugsað, að báturinn haldi til í Vestmannaeyjum og starfi aðallega á fiskveiðasvæðinu kringum þær. Jafnvel mun ekki óhugsandi, að hann komi að einhverjum notum á stærra svæði. Gera má ráð fyrir, að eigi veitti af 5—6 bátum af þessu tægi, ef tryggja ætti bátaflota allra veiðistöðva landsins. En sjáanlega eru ekki tök á að afla þeirra nú í svip, og mætti þá þessi fyrsta tilraun verða til fyrirmyndar síðar um tilhögun alla og rekstur.

Annars vona jeg, að nál. á þgskj. 234 beri með sjer, hvað fyrir nefndinni vakir, og þurfi því eigi frekari greinargerð; býst jeg við, að háttv. deild geti fallist á till. með umræddri viðbót nefndarinnar.