29.05.1918
Neðri deild: 34. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Pjetur Jónsson:

Við erum tveir í fjárveitinganefnd, sem ekki höfum sjeð okkur fært að fallast á þessa till. Ekki af því, að við viðurkennum ekki þörfina á því að útvega björgunarbát. En það hefir nú verið svo, í hvert sinn, sem þessu máli hefir verið hreyft, þá hefir þótt í mikinn kostnað ráðist, ef báturinn ætti að vera góður og útbúnaður allur fullkominn.

Nú hefir málinu verið hreyft á þann veg, að það er ekki ætlast til þess, að landssjóður kaupi bátinn, heldur styrki eitthvert fjelag til þess að kaupa hann og halda honum úti. En enn þá veit jeg ekki til, að neinn undirbúningur sje um slíkan fjelagsskap nje um bátskaupin. Nú er það venja, að samþykkja ekki þesskonar styrkveitingar fyr en eitthvað liggur fyrir sena veiti einhverja tryggingu fyrir framkvæmdinni, einhver, sem ætlar að ráðast í fyrirtækið, og leitar styrks til þess. Það virðist því nokkuð fljótt, meðan ekkert er að þessu gert, að fara að heita fje úr landssjóði.

Jeg lít svo á, að það verði að liggja fyrir tilboð eða umsókn frá einhverju fjelagi, annaðhvort einstakra manna eða sveitar- eða sýslufjelagi, sem bundist hefir fyrir framkvæmdirnar og legði fram áætlun um það. Auðvitað getur verið um það að tala, að þetta styrktilboð, sem tillagan hljóðar um, eigi að vera til þess að hvetja einhver fjelög til þess að ráðast í að kaupa bátinn, og væri hjer um bjargráð að ræða, sem sjerstaklega miðuðust við yfirstandandi hernaðarástand. En þótt þetta sje „bjargráð“ í almennari skilningi, þá miðast þau ekkert sjerstaklega við þennan tíma. Nú veigrar þing og stjórn sjer við flestum fjárframlögum til hinna bráðustu bjargráða, og það sökum sýnilegs fjárskorts. Mjer sýnist því, að ekki hæfi annað en að skjóta þessu þarfa fyrirtæki á frest þangað til hitt er frá hendinni.