29.05.1918
Neðri deild: 34. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (1395)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Bjarni Jónsson:

Jeg ætla að leyfa mjer að mæla með því, að þetta verði heimilað. Eftir því, sem kunnugt er orðið, mun hugsað til þess, að báturinn haldi til við Vestmannaeyjar, sem er, eins og menn vita, stór veiðistöð úti í reginhafi. Ber það oft við, að bátar þaðan verða nauðulega staddir úti á fiskimiðum og geta enga björg sjer veitt, er vjel bilar og ómögulegt er að ná landi fyrir stormi og sjó.

Botnvörpungar hafa oft orðið til þess að draga að landi báta, sem rekið hefir bjargarlausa fyrir vindi og sjó. En það vill ekki ávalt svo til, að botnvörpungar verði á veginum, og þá farast bátarnir með allri áhöfn, því að ekkert er til bjargar. Það má því gera ráð fyrir, að það mundi draga úr manntjóni hjer við land, ef styrkur er veittur til þessa báts.

Einnig má lita á það, að veiðistöð þessi er landseti landssjóðs, — situr á einni af þeim eignum, sem landið hefir ekki látið frá sjer. Það virðist því sanngjarnt og eðlilegt, að landssjóður geri þetta fyrir Eyjabúa, til þess að tryggja atvinnuveg þeirra, því að þeir hafa setið eignina vel. En ríkust á metunum verða þó mannslífin, sem þessi ráðstöfun gæti bjargað.