11.06.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Frsm. sjávarútvegsnefndar Ed. (Kristinn Daníelsson):

Brtt. sú, sem hjer liggur fyrir sameinuðu þingi og prentuð er á þgskj. 334, er í rauninni að eins smávægileg breyting á þingsályktunartill. á þgskj. 284, en breyting, sem jeg álít að svari til hins upphaflega tilgangs.

Eins og kunnugt er, þá er þingsályktunartill. upprunalega runnin frá sjávarútvegsnefnd Ed. Vona jeg, að háttv. samnefndarmenn mínir þar sjeu samþ. brtt. þessari. Tilgangurinn með henni er að koma till í sama horf og upprunalega var til ætlast, þ. e. að hverjir þeir menn eða fjelög, sem fyrstir verða til þess að hrinda því máli, sem hjer er um að ræða, af stað, fái að njóta þessa styrks, án tillits til hvar þeir eru á landinu. Því að jeg kann ekki við, að styrkurinn sje bundinn við Vestmannaeyjar eingöngu, þar sem þörfin á björgunarbát er hin sama svo víða annarsstaðar. Má t. d. benda á — eins og jeg líka hefi áður gert — verstöðvarnar kringum Reykjanesskagann, þar sem sjósókn er mikil og jafnframt hættuleg. Einkum er mótorbátaútgerð mikil frá Sandgerði, og komast þeir þar oft í hann krappan á vetrarvertíðinni. Bátstapar hafa einnig komið fyrir á þessu svæði. Sem frsm. nefndarinnar í Ed. get jeg lýst yfir því, að það hefir aldrei verið ætlunin, að stjórnin veitti styrk nema til eins báts að sinni. Og eftir þeim upplýsingum, sem fyrir lágu þar, er langlíklegast, að Vestmannaeyjar verði fyrstar til þess að afla bátsins. En jeg kann ekki við, ef svo skyldi ólíklega fara, að Vestmannaeyjar kæmu þessu ekki í framkvæmd, og önnur hjeruð, þar sem þörfin er engu minni, vildu koma sjer upp bát, að orðalagið á till. yrði til þess, að ekki mætti veita þessum hjeruðum styrkinn. En standi hún óbreytt, eins og hún er, verður stjórnin að svara, þegar þau biðja um styrk: Nei, það má ekki veita styrkinn öðrum en Vestmannaeyjum. Þetta álít jeg ófært og vona, að brtt. á þgskj. 344 verði samþykt.