11.06.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Frsm. sjávarútvegsnefndar Ed. (Kristinn Daníelsson):

Jeg get verið háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) samdóma um, að tímarnir sjeu erfiðir, en hinu verð jeg að mótmæla, að þetta mál sje undirbúningslaust. Fiskifjelag Íslands hefir unnið nokkuð að því að hrinda því í framkvæmd og Sjeð fyrir löngu, að svo má ekki lengur standa. Sama hefir fjöldi annara manna sjeð, eftir að mótorbátunum fjölgaði svo mjög. Vestmannaeyingar hafa líka skorað á þingmann sinn að beitast fyrir málinu hjer á þingi, og þótt eigi sje búið að stofna fjelag til framkvæmda, þá mun ekki standa á því, einkum ef Alþingi samþykti till., því að hún yrði mönnum hvatning til þess að vinda bráðan bug að þessu.

Jeg álít alveg ókleift fyrir háttv. þm. að ætla sjer að fella málið með þeirri mótbáru, að það sje ekki undirbúið, þar sem allir, sem nokkuð þekkja til sjávarútvegs, vita, að þetta má ekki dragast lengur, og jafnframt, að tök sjeu til bjargráða, ef þingið að eins styður.

Rekstrarkostnaðurinn getur fengist að nokkru leyti með því að láta bátinn starfa að öðru þann tímann, sem veðrátta er hagstæð. Því að ekki álít jeg það rjett, að báturinn megi eigi öðru sinna en eingöngu því að vera björgunarbátur. Hann ætti vel að geta sint fiskveiðum þess á milli. Sem betur fer eru margar vertíðir fleiri dagar góðir en vondir hvað veður snertir.

Örðugleikarnir eru því alls ekki svo miklir, að þingið eigi nú að gefast upp við annað eins nauðsynjamál eins og þetta er. Þess vegna vona jeg, um leið og brtt. mín verður samþykt, að till. sjálf nái fram að ganga.