11.06.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Frsm. sjávarútvegsnefndar Nd. (Sveinn Ólafsson):

Þessi brtt. á þgskj. 334, sem hjer liggur fyrir til umræðu og atkvæðagreiðslu, er svo seint komin fram, að sjávarútvegnefnd háttv. Nd. hefir ekki haft tækifæri til að bera sig saman um hana. Jeg get því ekki borið fram formlega umsögn frá nefndinni, en jeg hefi borið mig saman við háttv. meðnefndarmenn mína, og eftir því get jeg lýst yfir, að frá nefndarinnarinnar hálfu er ekkert því til fyrirstöðu, að þessi brtt. á þgskj. 334 verði samþykt, og þó með skírskotun til yfirlýsingar háttv. frsm. sjávarútvegsnefndar Ed., háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.), um að veita skuli styrk að eins til eins báts.

Jeg geri ráð fyrir því, vegna undirbúnings þess, er gerður hefir verið, að þrátt fyrir það, þótt brtt. verði samþ., þá verði báturinn engu að síður í Vestmannaeyjum, og því standi nokkuð á sama, hvort brtt. er samþykt eða eigi.

Það sem framsögumenn sjávarútvegsnefndanna, bæði í háttv. Nd. og háttv. Ed., hafa tekið það skýrt fram, að styrk beri að eins að veita til eins báts, þá sje jeg ekki hættu á því að samþykkja brtt. vegna þess, að fleiri sigli strax í kjölfarið og heimti styrk til samskonar báta annarsstaðar. Þess vegna vil jeg heldur styðja að því, að brtt. verði samþykt.