11.06.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (1411)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Matthías Ólafsson:

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) furðaði sig á því, og taldi það ósvinnu, að bjóða fram fje til styrktar björgunarbátum. Jeg verð aftur að furða mig á því og telja það ósvinnu, að það hefir ekki verið gert fyr. Eitt hið mesta böl þjóðarinnar hefir hið mikla manntjón verið, því að mannslífin eru dýrmæt. Og brýnust þörf er á því að finna ráð og leiðir til að tryggja líf sjómanna vorra — sem og annara — sem best að auðið er. Jeg verð því algerlega og sterklega að mótmæla ummælum háttv. þm. S.-Þ. (P. J.).

Mjer fanst háttv. frsm. fjárveitinganefndar Nd. (M. P.) vera nokkuð harðorður um brtt. Jeg verð að líta svo á, sem brtt. sje meinlaus. Eins og nú hagar, þá hljóta Vestmannaeyingar að fá styrkinn, því að þeir einir hafa hafið undirbúning um þetta, en ef svo skyldi fara, að þeir kiptu að sjer hendinni, þá sje jeg ekki neitt á móti því, þótt veita mætti öðrum styrkinn. En jeg vænti þess, að Vestmannaeyingar verði samt fyrstir, hvort sem brtt. verður samþ. eða feld, og stendur því á sama um forlög hennar.